Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:09:21 (1700)

2000-11-14 15:09:21# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. heldur auðvitað þessari skoðun sinni eftir því sem hann vill og það væri gaman ef einhver virtur fjölmiðill yrði okkur til liðs í þessu máli og gerði vandaða skoðanakönnun hvað varðar þetta atriði. Það væri kannski heppilegra að vísu að það væri ekki DV því að hæstv. utanrrh. hefur af einhverjum undarlegum ástæðum óvenjulítið álit á skoðanakönnunum frá þeim fjölmiðli, sérstaklega ef fylgi Framsfl. mælist lítið í þeim. En þannig gengur það ekki fyrir sig.

Varðandi það að ég taki ekki mið af breytingum sem hafa orðið, þá geri ég það. Það er alveg rétt að í umræðunni eru þessi mál ekki í brennidepli með sama hætti og þau voru í hita kalda stríðsins. En þar með er ekki sagt að skoðanir almennings hafi í stórum dráttum breyst og það held ég að hafi ekki gerst. Ég er ekki viss um að almenningur sé jákvæðari í garð Atlantshafsbandalagsins eða veru erlends hers hér á landi eftir loftárásir hinna fyrrtöldu á Júgóslavíu og eftir þá staðreynd að Ísland varð í gegnum aðild sína að NATO í fyrsta skipti í sögunni beinn aðili að árásaraðgerðum á aðra þjóð. Ég er ekki viss um það, breytingarnar eru því ekki bara í eina átt, herra forseti.