Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:16:04 (1704)

2000-11-14 15:16:04# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ástand heimsmálanna er þannig um þessar mundir að það er eitt heimsveldi á sviðinu sem fer sínu fram, gerir nokkurn veginn það sem því sýnist ... (Gripið fram í: Þeir voru að kjósa núna.) Þeir voru að reyna að kjósa núna og þeir ganga svo langt, þeir ágætu menn, að það stendur aftan á einum peningnum þeirra --- gott ef það eru ekki 25-sentin --- að þeir séu vagga lýðræðis í heiminum. ,,Shrine of Democracy`` stendur aftan á einhverjum bandarískum peningi. Svo gengur þetta svona til eins og raun ber vitni hjá þeim að kjósa. En þetta er svona og það er mjög rík tilhneiging hjá mörgum að styggja ekki risann, trufla hann ekki, komast ekki í ónáð hjá honum og við skulum ekki gleyma því þegar við erum að ræða um þróun alþjóðastjórnmála og utanríkis- og öryggismála í heiminum frá því að Sovétríkin liðuðust sundur og Varsjárbandalagið leið undir lok, að þá tók við af því tveggja póla kerfi sem áður hafði verið eins póls kerfi ,,uni-polar system`` og það er við lýði í dag. Það er ekki hægt að ræða um alþjóðastjórnmál öðruvísi en að virða þessa staðreynd til skilnings á þeim hlutum sem þarna eru að gerast.