Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:17:18 (1705)

2000-11-14 15:17:18# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það vill stundum svo til í þessum sal að menn gera miklu meira úr ágreiningi en efni standa og það tel ég að menn geri nú. Það er ekkert langt síðan ég var öflugur stuðningsmaður ríkisstjórnar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat í. Það bar aldrei neitt á milli í utanríkismálum að því er varðar herstöðina eða varnarsamstarfið. Ég man aldrei eftir því að okkur hv. þm. hafi orðið sundurorða þar um eða neinar deildar meiningar, enda var það stefna þeirrar ríkisstjórnar að gera engar breytingar svo að ég tel að menn séu að gera allt of mikið úr þeim ágreiningi sem hér hefur komið upp.

Hv. þm. sagði um hugmynd mína að endurvekja Evrópustefnunefndina að þetta væri í samræmi við tillögu sem hann hefði flutt fyrir nokkru síðan. Það er ekki rétt. Till. til þál. um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum sem hann vísar til, hljóðar svo í upphafi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið standi utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda ...``

Og lokin eru svohjóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni að nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar.``

Með öðrum orðum, fyrst á að taka ákvörðunina og síðan á að skipa nefndina. Tillaga sú sem ég vísaði til hljóðar hins vegar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela utanrríkisráðherra að skipa nefnd sjö alþingismanna eftir tilnefningu þingflokka til að taka til sérstakrar athugunar þá þróun sem fyrir dyrum stendur í Evrópu. Nefndin skal kanna áhrif þessara ákvarðana og líklegrar þróunar í Evrópu á íslenskt efnahagslíf og meta þær leiðir sem álitlegastar eru til að laga íslenskt efnahags- og atvinnulíf þeim breytingum sem fram undan eru.``

Þetta er allt annar hlutur. Þarna er um það að ræða að útiloka enga leið fyrir fram heldur vera opinn fyrir öllum möguleikum, öfugt við það sem tillaga hv. þm. gerði ráð fyrir því að hún gerir ráð fyrir því að skjóta fyrst en spyrja svo. Hún gerir ráð fyrir því að umræddri nefnd sem á að kjósa á Alþingi sé upphaflega bannað að komast að ákveðinni niðurstöðu. Það er ekki sú tillaga sem ég orðaði.