Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:21:13 (1707)

2000-11-14 15:21:13# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek það síður en svo illa upp að hv. þm. lýsi því yfir að hann geti hugsanlega fallist á þá tillögu sem ég gerði jafnvel þó svo hún gangi í berhögg við þá tillögu sem hann hefur sjálfur flutt. En það er bara af því góða.

Hins vegar ítreka ég að ég sé að sjálfsögðu mikið eftir því ef leiðir okkar hv. þm. skilja. Ég var öflugur stuðningsmaður hans í þeirri ríkisstjórn sem við studdum báðir og hann sat í. Það var aldrei ágreiningur um varnarmál, veru hersins eða aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, enda ítreka ég það að sú ríkisstjórn var mynduð á því að allir samþykktu að þar yrði staðið við fyrri ákvarðanir og engar breytingar á þeim gerðar. Þess vegna held ég að við séum að gera meira úr ágreiningi en efni standa til. Það getur vel verið að hvíni í tálknum á mönnum þegar þeir þurfa ekki bera ábyrgð á athöfnum sínum. En þegar þeir þurfa bera ábyrgð á athöfnum sínum þá kemur í ljós að samstaðan er öllu meiri en þeir vilja vera láta.