Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:22:16 (1708)

2000-11-14 15:22:16# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skal fara einhvern tíma yfir það við tækifæri með hv. þm. sem bar á góma í þessari ágætu ríkisstjórn sem hann vitnar til um utanríkismál. En það var einmitt ein gæfa þeirrar ríkisstjórnar að hún bar ágreiningsmál eða umræður sem þar urðu innan veggja ekki mikið á torg. Ég hygg að í fundargerðum sé hægt að finna að um þessi mál var fjallað oftar en einu sinni og var m.a. rætt þar að setja sérstakan starfshóp ráðherra í það mál. En stjórnin var mynduð á grunni sem var þegar komin hefð fyrir, þ.e. óbreyttu ástandi í þeim efnum, eins og kunnugt er, og það er vel þekkt fyrirbæri við aðstæður af þessu tagi (Gripið fram í.) og er ekkert nýtt. En hver flokkur hélt sinni afstöðu.

Ég geri ráð fyrir því að Alþfl. sálugi --- fyrirgefðu, herra forseti, það er víst of snemmt að taka svo til orða --- hafi réttlætt setu sína í ríkisstjórnum sem framkvæmdu óbreytt kvótakerfi með einhverjum sambærilegum hætti, þ.e. að það væri um ,,status quo`` vopnahlésástand að ræða, að menn létu málin liggja þar sem þau væru vegna þess að þeir væru að sameinast um önnur tiltekin verkefni. Það er alþekkt þegar flokkar gera með sér málamiðlanir um stjórnarsamstarf að einhvers konar málamiðlunargrundvöllur er lagður. En flokkarnir hverfa ekki frá afstöðu sinni hver fyrir sig þar með, eða var það (Forseti hringir.) þannig hjá Alþfl. að hann tæki alltaf upp málamiðlanirnar sem sýna stefnu?