Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:52:19 (1714)

2000-11-14 15:52:19# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. utanrrh. að það er auðvitað von allra að þessar aðgerðir, niðurfelling skulda fátækustu ríkja heims, leiði til þess að þau fái annað tækifæri eins og segja má. Samt hafa staðið nokkrar deilur, aðallega á milli þá ríkra og fátækra þjóða, um hverjar kröfurnar ættu að vera og hvaða kröfur hin fátæku ríki þyrftu að uppfylla og til hvers konar efnahagsaðgerða þau þyrftu að grípa til þess að vera gjaldgeng til niðurfellingar. Ég hef heyrt það á máli manna sem þekkja vel til að það sé í raun sums staðar ómögulegt að gera miklar kröfur til bættra lýðréttinda eins og hæstv. ráðherra komst að orði vegna þess að að einhverju leyti þurfi fyrst að reyna að vinna bug á fátæktinni áður en hægt er að grípa til annarra aðgerða í samfélaginu.

Þetta er vissulega mjög flókið mál og mikil þörf á að við hér á Alþingi ræðum þetta betur og ég mun sjálf beita mér fyrir því í hv. utanrmn. að við kynnum okkur þessi mál betur í framtíðinni.