Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:15:12 (1734)

2000-11-14 17:15:12# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:15]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu heldur aðeins að koma hér vegna þess að ég hét því að í því litla starfi sem ég hef verið í varðandi erlend samskipti, að koma ákveðnum hlutum á framfæri og mun gera það í ræðu minni.

Ég vil hefja mál mitt á því að þakka munnlega skýrslu hæstv. utanrrh. sem er hérna til umræðu. Mín skoðun er sú að aukinn þáttur alþjóðaviðskipta og útrás íslenskra fyrirtækja krefjist stöðugrar aukningar og eflingar utanríkisþjónustunnar. Sókn á alþjóðamarkaði þarf mikinn pólitískan stuðning og markaðsaðstoð. Ég tel af þeirri litlu reynslu sem ég hef af þessum málum að Ísland sé ótrúlega marktækt afl í alþjóðasamstarfi. Þrátt fyrir smæð okkar sem þjóðar hefur það verið þannig, a.m.k. þar sem ég hef verið, að rödd Íslands heyrist mjög greinilega hvar sem fulltrúar okkar eiga seturétt og aðild. Þá vil ég segja það á þann veg að mér hefur virst þetta vera þannig að það er nánast þverpólitísk samstaða í nefndum um þau málefni sem fjallað er um á erlendum vettvangi og ég get verið stoltur af því að hafa verið þátttakandi í umræðum og í samstarfi með fólki bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu þar sem menn töluðu einu máli. Ég tel að það sé einn aðall okkar Íslendinga í þessu alþjóðasamstarfi og því sem við erum að fjalla um á erlendum vettvangi.

Núna er sextugasta afmælisár utanríkisþjónustunnar. Ég vil óska okkur til hamingju með það. Kostnaður okkar vegna alþjóðasamskipta er verulegur og mun líklega aukast. En ég trúi því að að sama skapi muni það gera okkur öflugri efnahagslega og skapa okkur efnahagslega öruggari sess á meðal þjóða.

Herra forseti. Ég ætla, eins og ég sagði í upphafi máls míns, lítillega að nefna það erlenda samstarf sem ég hef átt kost á að taka þátt í. En um leið vil ég gera eins og ræðumaðurinn á undan mér og tel ástæðu til að þakka góð samskipti við starfsfólk utanrrn. og alþjóðadeild Alþingis fyrir góða aðstoð og ábendingar um þau efni sem ég hef þurft að leita til þessa fólks með.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er nefnt hversu mikilvægt norrænt samstarf er fyrir okkur Íslendinga. Ég vil vekja sérstaklega athygli á vestnorrænu samstarfi sem Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar taka þátt í og því starfi sem þar fer fram. Það fer nefnilega ekki mjög mikið fyrir því starfi svona í opinberri umræðu. Ég tel að við megum ekki gleyma því að við erum stærst þessara þriggja þjóða og þurfum að leggja ríkulega okkar af mörkum til þess samstarfs og sýna að við getum verið stór í því samstarfi eins og aðrar stórþjóðir sýna okkur virðingu og hefja okkar mál fram.

Ég vil aðeins nefna það að Vestnorræna ráðið hefur sett fingurna á mörg málefni sem varða menningu og menningarleg samskipti á milli þjóðanna og ég vil biðja hæstv. utanrrh. að fylgja því eftir og skoða þær samþykktir sem hafa verið gerðar. Ég efast ekki um að það hafi hann gert.

Ég nefndi í upphafi að ég hefði lofað að koma hér á framfæri ákveðnu atriði þó það eigi kannski frekar heima undir samgrh., þ.e. samgöngunum milli Færeyja, Íslands og Grænlands. Vestnorræna ráðið samþykkti ályktun samhljóða frá öllum þar sem við lýsum yfir áhyggjum vegna þeirra frétta að Flugfélag Íslands og Grænlandsflugið hafi ákveðið að leggja niður flugið á milli Nassarsuaq og Íslands frá og með næsta sumri. Þessu höfum við mjög miklar áhyggjur af og ég bið alla þá sem geta beitt sér í þessu máli að taka þar á. Þetta gengur ekki. Það er búið að byggja upp samskipti og ferðamannaþjónustu sem mun hreinlega fara í rúst með þessu. Við verðum að taka þarna á með bræðraþjóðum okkar hvernig svo sem við gerum það. Ég ætla ekki að fara að leggja það upp hér neitt sérstaklega hvaða tillögur ég er með í málinu en ég held að það þurfi ráðast á ráðherraplani hvernig menn sjá um að flugsamgöngur verði í lagi á milli þessara vestnorrænu landa.

Ég er hér með ályktun sem varðar þetta og henni hafði ég lofað að fylgja eftir eða segja frá hér í þingi og ég geri það hér með þó svo að henni hafi verið dreift til hv. þingmanna.

Mig langar örlítið að minnast á fleiri atriði. Ég átti þess kost að sitja fund Alþjóðaþingmannasambandsins nú fyrir skömmu undir forustu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Þar kom í ljós að litla Ísland hafði allverulega nokkuð að segja þar sem hv. umræddur þingmaður var kjörinn til forustu í félags- og efnahagsmálanefnd og hvað sem menn hafa annars um það að segja þá skiptir verulegu máli að rödd þessa litla lands heyrist og er borin virðing fyrir landinu og það er kannski líka arfur frá því að forverar í þessu starfi náðu góðum árangri og á þessum vettvangi tala menn einni röddu. Mér finnst ástæða til þess að nefna öðru hverju jákvæða hluti í samstarfi þingmanna og það er ein af helstu ástæðunum fyrir því, herra forseti, að ég tók hér til máls og ég læt þessu þar með lokið.