Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:27:43 (1737)

2000-11-14 17:27:43# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér nokkru fyrr við umræðuna var rætt um mannréttindamál og mannúðarstarf og þá ekki síst gagnvart fátækum börnum. Mér varð það á að kalla fram í og óska eftir því að hæstv. utanrrh. viki sérstaklega að fátækum börnum í Írak. Við þetta komst hæstv. ráðherra í uppnám og þetta varð til að trufla andsvar sem hann átti við annan hv. þingmann og vil ég biðja afsökunar á því. Það vakti ekki fyrir mér. (Utanrrh.: Nú.) Hitt var svo annað mál að það vakti fyrir mér að efna til umræðu um börn í Írak. Það er alveg rétt. Ég sé til þess ástæðu og hæstv. utanrrh. var ekki að biðjast undan slíku. Hann sagði reyndar að ég hefði oft tekið það málefni til umfjöllunar og einhvern tíma meira að segja viðhaft ósæmileg ummæli, ef ég man rétt. Ég vildi gjarnan að hann skýrði hvað hann á við með því, hvaða ummæli það voru sem voru ósæmileg, því að hitt er ósæmilegt hvernig komið er fram gagnvart fátækum börnum í Írak. Það er ósæmilegt. Og hlutur íslenskra stjórnvalda í því er ósæmilegur.

Ég hef gert að umræðuefni rannsóknarskýrslur sem hér hafa verið unnar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Ég vísaði sérstaklega í rannsóknarskýrslu sem unnin var á vegum undirnefndar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem dregin eru saman gögn úr ýmsum áttum. Þar kemur fram um manntjónið af völdum viðskiptabannsins, að deilur geisa um hversu mikið það er. Í þeirri samantekt sem ég vísa til og var birt í júnímánuði segir að ætla megi að á bilinu hálf milljón til hálfrar annarrar milljónar manna hafi látið lífið af völdum viðskiptabannsins og að meiri hlutinn séu börn.

Í þessari skýrslu kemur einnig fram, og er þar vísað reyndar í aðra athugun, nokkuð sem komið hafi fram í umfjöllun á vegum öryggisráðsins, vinnugagn sem það fékk eða kom fram við umræðu, að um 23% barna í Írak fæðast undir eðlilegri þyngd. Það kemur fram að fjórðungur allra barna í Írak undir fimm ára aldri þurfi að búa við vannæringu. Það kemur fram að aðeins 41% þjóðarinnar hafi aðgang að hreinu vatni, að 83% allra skóla í landinu séu í óviðunandi ástandi. Einnig er ítarleg umfjöllun um ástandið í heilsugæslunni, hve bagalegt það sé.

[17:30]

Það var þetta sem ég óska eftir að heyra hæstv. utanrrh. tjá sig nánar um, um stöðu fátækra barna í Írak, vegna þess að þetta eru vandræði af mannavöldum. Barnadauðinn er miklu meiri núna en hann var fyrir Flóastríðið. Það kemur fram í þeim skýrslum sem ég er að vísa til að ástandið í þeim efnum hafi alls ekki verið slæmt í Írak, nú sé það verra en þekkist víðast hvar í heiminum. Allt er þetta af völdum viðskiptabanns á Írak, viðskiptabanns sem er nú u.þ.b. tíu ára. Það var sett á sínum tíma undir þeim formerkjum að það ætti að koma einræðisherranum Saddam Hussein frá völdum. En hann situr sem kunnugt er sem fastast á valdastóli og ekkert sem bendir til þess að hans völd séu að veikjast.

Óhugnanlegt er til þess að vita að á sama tíma og nær allir þeir sem stýra mannúðar- og mannréttindastarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak segja af sér vegna þeirrar stefnu sem öryggisráðið hefur þvingað fram þá skuli íslensk stjórnvöld, íslenska ríkisstjórnin berja höfðinu við steininn og svara alþingismönnum nánast með skætingi þegar um þetta er rætt og þora ekki einu sinni að láta þáltill. um þetta efni koma til atkvæðagreiðslu í þinginu, þora ekki að láta þáltill. sem hefur verið flutt ár eftir ár um endurskoðun á viðskiptabanninu á Írak koma til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Ár eftir ár er hún svæfð í utanrmn. Á síðasta ári var gerð mjög alvarleg athugasemd við þetta en það hefur ekki stoðað.

Denis Halliday, Hans von Sponeck, Jutta Burghart eru dæmi um yfirmenn mannúðarstarfs Sameinuðu þjóðanna í Írak sem hafa sagt af sér vegna þess að þeir treystu sér ekki til að starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak á meðan sú stefna sem framfylgt hefur verið núna í tíu ár er rekin.

Ég auglýsi eftir því að hæstv. utanrrh. komi upp og hreki þær staðreyndir sem ég er að setja fram, þær fullyrðingar. Eru þær rangar? Er það rangt að það hafi komið fram í rannsóknarskýrslum á vegum Sameinuðu þjóðanna að mörg hundruð þúsund manns, og þar af mörg hundruð þúsund börn, hafi látið lífið af völdum viðskiptabannsins á Írak? Er það rangt? Er rangt að þetta hafi komið fram í rannsóknargögnum sem eru unnin eru á vegum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna? Er hæstv. utanrrh. að vefengja þetta? Meira að segja vinkona ráðherrans, Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem kom hingað, hefur réttlætt þetta. Hún hefur sagt í viðtali við ameríska sjónvarpsstöð að þetta væri þess virði. Það væru svo miklir stórveldahagsmunir Bandaríkjanna í húfi að það væri þess virði. Þetta sagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Er hæstv. utanrrh. Íslands á sama máli?

Er hann að vefengja afleiðingar viðskiptabannsins sem lýst er í skýrslum Sameinuðu þjóðanna? Er það rangt sem haldið er fram?

Að lokum óska ég eftir því að hæstv. utanrrh. skýri hvað hann á við þegar hann heldur því fram að ég hafi haft ósæmilegar fullyrðingar um þetta mál. Ég óska eftir skýringum á því.