Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:36:00 (1738)

2000-11-14 17:36:00# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri athugasemdir við þann málflutning hv. þm. og ýmissa annarra að því er varðar Írak að lýsa allri ábyrgð á hendur Sameinuðu þjóðunum og aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Það er það sem þingmaðurinn gerir. Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá Saddam Hussein. Það er hann sem hefur farið í stríð við eigin þjóð. Það er rótin að þessu máli. Það nefnir þingmaðurinn mjög sjaldan.

Hann hefur sagt á Alþingi að Sameinuðu þjóðirnar beri ábyrgð á dauða þessara barna og hann hefur jafnframt gengið svo langt að íslenski utanríkisráðherrann sé ábyrgur prívat og persónulega fyrir dauða barna í Írak. (Gripið fram í.) Já. Það er það sem ég tel nú vera ósæmilegt. Það má vel vera að þingmaðurinn sé ósammála því. En það hefur hann sagt á Alþingi þó að nokkuð sé um liðið.

Vegna þess að hv. þm. vitnar oft í skýrslu sem kom 21. júní á þessu ári um lögfræðileg álitamál er rétt að geta þess að sú skýrsla kom fram. Hins vegar verður jafnframt að taka það fram að hún hefur ekki verið samþykkt af mannréttindaráðinu. Þetta er skýrsla sem er unnin á vegum undirnefndar þannig að þingmaðurinn má ekki túlka skýrsluna sem skoðun mannréttindanefndarinnar eða skoðun Sameinuðu þjóðanna eins og mér finnst stundum koma fram í máli hans. Þegar vitnað er í t.d. að um þjóðarmorð sé að ræða er m.a. vísað til greinargerðar Elíasar Davíðssonar svo það sé alveg ljóst hvaðan þessar upplýsingar eru komnar.