Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:38:15 (1739)

2000-11-14 17:38:15# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta fór allt á sama veginn, við fáum aldrei neinar efnislegar umræður heldur er reynt að sverta hlutina með skírskotun til einstaklinga og annað slíkt.

Hæstv. utanrrh. verður að axla þá ábyrgð sem hann tekur sem utanrrh. landsins. Það er vissulega ábyrgðarhluti af íslensku ríkisstjórninni og þar með hæstv. utanrrh. að styðja viðskiptabannið á Írak. Það er ábyrgðarhluti og þá ábyrgð verður hæstv. utanrrh. að axla og það á hann að gera sem utanrrh.

Ég held því fram að viðskiptabannið á Írak stríði gegn mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, það stríði gegn barnasáttmálanum, það stríði gegn Genfarsáttmálanum frá 1949 og viðauka við hann frá 1977. Ég held því fram að bannið stríði gegn þessum sáttmálum. Við eigum ekki að rugla þessu saman við hvern við teljum hlut Saddams Husseins vera. (Utanrrh.: Nú?) Það er allt annar handleggur. Við erum að brjóta alþjóðlegar skuldbindingar, mannréttindasáttmálann, við erum að brjóta barnasáttmálann, alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sem við höfum gefið og það er mergurinn málsins. Hvað Saddam Hussein viðvíkur er það staðreynd að hann situr sem fastast eftir tíu ára viðskiptabann. Þetta er staðreynd. En í valnum liggur hálf önnur milljón manna, þar á meðal mörg hundruð þúsund börn.

Við eigum að axla ábyrgð í þessum efnum. Því miður styður ríkisstjórn Íslands og hæstv. utanrrh. þá stefnu sem hefur leitt þetta af sér. Það er staðreynd.