Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:42:19 (1741)

2000-11-14 17:42:19# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hver er rótin að því að verið er að murka lífið úr saklausu, varnarlausu fólki? Hver er rótin að því? Rótin er sú að menn eru að reyna að koma Saddam Hussein einræðisherra frá völdum. Hann situr sem fastast. En afleiðingar þessa viðskiptabanns eru óumdeilanlegar. Stoðkerfi þessa lands, heilbrigðisþjónustan, skólakerfið hafa verið eyðilögð og lífið murkað úr mörg hundruð þúsund einstaklingum. Um þetta deila menn ekki.

Menn geta deilt um hver rótin er og hversu hyggilega er staðið að verki en þetta er staðreyndin. Þetta eru afleiðingarnar.

Ég hef einnig bent á að þessar aðgerðir stríði gegn nánast öllum þeim mannréttindasáttmálum sem við eigum aðild að, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Genfarsáttmálanum með viðauka, barnasáttmálanum. Mér finnst skelfilegt að hlýða á hæstv. utanrrh. Íslands tyggja upp sömu tuggurnar og við heyrum úr bandaríska utanríkisráðuneytinu á sama tíma og allir þeir sem sinna mannúðarstarfi í Írak á vegum Sameinuðu þjóðanna fordæma þessar aðgerðir, vara við þessum aðgerðum og þegar það hefur ekki tjóað þá hafa þeir sagt af sér. Síðast í mars lýsti aðalritari Sameinuðu þjóðanna miklum efasemdum, og þær kenningar hafa verið uppi að forveri hans, Butros Butros-Ghali, hafi ekki fengið stuðning Bandaríkjamanna til áframhaldandi setu í embætti aðalritara Sameinuðu þjóðanna vegna andstöðu sinnar við viðskiptabannið á Írak.

Við erum að tala um stórveldahagsmuni og við heyrum hvers taum hæstv. utanrrh. Íslands dregur, því miður.