Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:59:02 (1743)

2000-11-14 17:59:02# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. nánar út í aðstoð við fátækustu ríki heims og niðurfellingu skulda og lánveitinga þeim til handa. Það er rétt sem fram kom í máli hans að hér áður fyrr veittu Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lán sem gengið hafa undir vinnuheitinu aðlögunarlán eða ,,structural adjustment loans``. Þetta hefur verið gagnrýnt harðlega og ég hef gagnrýnt að hæstv. utanrrh. hefur talað fyrir slíkum skilyrðum, gerði það m.a. í ræðu sem hann flutti í Hong Kong á sínum tíma og ég vitnaði til áður. En nú segir hann að það hafi orðið breyting á þessu með vinnulagi, sem ég gerði reyndar að umræðuefni í ræðu minni áðan, þar sem ríkjunum er gert að koma með tillögur sjálf um hvað þau hyggist gera í sínu efnahagslífi. Síðan er farið yfir þær tillögur af hálfu þessara sömu aðila, Alþjóðabankans og annarra stofnana sem honum tengjast, til þess að ganga úr skugga um hvort ríkin uppfylli skilyrði því að skilyrðin eru eftir sem áður fyrir hendi. Ég hef spurt: Hver eru þessi skilyrði? Ég veit um þetta breytta vinnulag. En hver eru skilyrðin fyrir lánveitingunum? Kann þar að liggja skýringin á því að aðeins lítið brot af þeim lánveitingum sem ætlað var til niðurfellingar skulda hefur gengið út, að ríkin eru ekki reiðubúin að ganga að þessum skilyrðum sem þeim eru sett?

Í síðara andsvari mínu mun ég koma nánar að einkavæðingu og möguleikum á einkavæðingu í þriðja heiminum því að það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra að þar sé eftir engu að slægjast fyrir fjölþjóðarisa.