Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 18:03:03 (1745)

2000-11-14 18:03:03# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það ætti strax að vekja einhverjar spurningar að tilboði um að fella niður skuldir skuli ekki tekið strax fegins hendi og þeir peningar eða þær styrkveitingar skuli ganga út. Ekki staðlað form, segir hæstv. ráðherra. Það er ekki hægt að alhæfa um öll ríki, það er alveg rétt. En stöðluðum reglum hefur verið fylgt, það er staðreyndin og þessar stöðluðu reglur hafa verið gagnrýndar og skilyrðin hafa gengið út á að ríkjunum hefur verið gert að markaðsvæða innri stoðkerfin. Er eitthvað þar að sælast eftir fyrir fjölþjóða risa og alþjóðlega fjármagnseigendur? Já. Svo er. Menn skyldu kynna sér t.d. fyrirkomulag vatnsveitna í Suður-Ameríku eða í Asíu, vissum ríkjum Asíu þar sem fjölþjóðleg fyrirtæki hafa náð þeim undir sig, samgöngukerfin, orkuveitur og auðlindir margvíslegar sem hafa verið á hendi þjóðanna. Öllum þessum verðmætum hefur þessum ríkjum verið gert að koma í markaðsvætt form. Þegar það hefur farið saman að þær eru skuldsettar og þurfa að greiða skuldir sínar og er gert að færa eignir sínar yfir á búðarborðið hefur það gerst að þessi fjölþjóðlegu fyrirtæki og bankarnir hafa komist yfir þessar eigur. Þess vegna hef ég spurt og spyr enn: Hver eru þessi skilyrði? Af hverju getum við ekki fengið svör við þessu? Hver eru skilyrðin?