Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 18:04:48 (1746)

2000-11-14 18:04:48# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ruglar saman annars vegar þessari fyrirgreiðslu og annarri fyrirgreiðslu sem hefur verið á vegum Alþjóðabankans þegar hann talar um skipulagsbreytingar. Auðvitað er hér eitt brot af því sem er að gerast í aðstoð við þriðja heiminn. Á það hefur verið lögð áhersla að t.d. bæði í Kína og Indlandi, sem eru ekki með í þessum áformum og þurfa mjög á aðstoð Alþjóðabankans að halda og afskaplega stór hluti af aðstoð Alþjóðabankans hefur einmitt farið til Indlands, megi þessi skuldaniðurfelling ekki verða til þess að draga úr annarri aðstoð við ríki þriðja heimsins. Þar hafa ýmis mistök átt sér stað í gegnum tíðina, það er alveg rétt. Það eru hlutir sem menn eru að reyna að ráða bót á. Það er t.d. verið að gera þær breytingar í Indlandi að sú aðstoð sem fer í gegnum Alþjóðabankann fer ekki í gegnum alríkisstjórnina í Indlandi heldur til einstakra ríkja sem eru tæplega 30 talsins og í samvinnu við ríkisstjórnir einstakra ríkja. Menn telja að með þeim megi ná meiri árangri í aðstoð t.d. í Indlandi. Þarna eiga sér því stað stöðugar breytingar þar sem menn eru að reyna að læra af þeim mistökum sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina sem er rétt hjá hv. þm. hvort sem talað er um Suður-Ameríku eða önnur ríki. En því má ekki blanda saman við þessa áætlun, þ.e. um skuldaniðurfellinguna. Þar fyrir utan er margvísleg önnur aðstoð sem mun að sjálfsögðu halda áfram. Þar verða menn að byggja á þeirri reynslu sem menn hafa öðlast á undanförnum áratug.