Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:41:59 (1753)

2000-11-15 13:41:59# 126. lþ. 25.2 fundur 41. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntmrh. og spyr hvað ræður því að þeir aðilar sem sinna fullorðinsfræðslu fyrir fatlaða standa ekki jafnir að vígi gagnvart fjárframlögum til þeirrar þjónustu frá menntmrn. Á Siglufirði hefur verið starfrækt fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða en þar eru um 12 manns sem nýta sér þann möguleika til náms. Fleiri vildu gjarnan nýta sér fræðsluna en Siglfirðingar hafa ekki getað annað eftirspurn sem kemur sér mjög illa fyrir þá einstaklinga sem hafa ekki komist að.

Nú er það svo að Siglfirðingar hafa ekki fengið sérstaka fjárveitingu frá hinu opinbera til að sinna fræðslunni heldur hafa þeir verið háðir velvilja Akureyringa sem hafa látið þá hafa af fullorðinsfræðslukvóta sínum. Spurning mín er því kannski ekki alveg rétt orðuð að ekki sé greitt fyrir fullorðinsfræðslu á öðrum stöðum en á Akureyri eða í Reykjavík en önnur svæði eru upp á nágrannasveitarfélögin komin. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvernig standi á því að þeir sem sinna fullorðinsfræðslunni þurfi að vera upp á náð annarra sveitarfélaga komnir í þessum efnum. Er ekki tímabært að leiðrétta þann mismun sem fatlaðir búa við hvað þetta varðar eftir búsetu? Ég óttast að það stríði gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að fatlaðir njóti ekki jafnréttis til náms sama hvar þeir búa á landinu.