Víkingaskipið Íslendingur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:55:33 (1760)

2000-11-15 13:55:33# 126. lþ. 25.3 fundur 149. mál: #A víkingaskipið Íslendingur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Menntmrn. hefur ekki sérstaklega komið að siglingu skipsins Íslendings, en ég hef bæði í Grænlandi og einnig í New York orðið vitni að því hve mikla athygli sigling skipsins hefur vakið og það afrek Gunnars Marels Eggertssonar og áhafnar hans að sigla vestur um haf í kjölfar Leifs Eiríkssonar. Menntmrn. hefur einkum komið að sýningum eins og víkingasýningu sem er enn og verður í nokkur ár enn á ferð um Bandaríkin og einnig sýningu á íslenskum handritum og ráðstefnum og öðrum slíkum þáttum sem lúta að því átaki sem gert hefur verið í Norður-Ameríku á þessu ári og við munum áfram leggja þeim verkefnum lið þótt að landafundaárið líði.

Varðandi fyrirspurnir hv. þm. þá er ég þeirrar skoðunar að það kunni að sjálfsögðu að vera spurning um það, ef menn líta til frekari aðgerða undir þessum merkjum á komandi tímum í Norður-Ameríku, hvort skipið Íslendingur á að verða virkur þátttakandi í því áfram í Norður-Ameríku. Það er spurning sem menn þurfa að velta fyrir sér, en eins og vitað er þá er það skip í eigu Gunnars Marels Eggertssonar og ef menn vilja nota það meira til landkynningar í Bandaríkjunum eða Kanada á komandi missirum í kjölfar landafundaársins þá er það ákvörðun sem þarf að taka í samráði við hann og átta sig þá líka á þeim kostnaði sem því er samfara. Það er líka í höndum hans að ákveða framtíð sinnar eignar. En ég er alls ekki afhuga því. Vilji hann standa þannig að ráðstöfun skipsins að selja það þá hef ég hug á því að það verði keypt af Íslendingum til þess að það verði hér á landi. En þá verður líka að búa þannig um hnútana að skipið haldi sinni reisn og að það verði ekki þannig farið með það eins og við vitum að kann að gerast með skip sem á að varðveita til minningar um stórviðburði að þau verða næsta lítils virði þegar fram líða stundir.

Það er mikið álitamál hvernig að því skuli staðið. En ég vek athygli hv. þingmanna á því að í borgarráði Reykjavíkur liggur nú fyrir tillaga frá fulltrúum Sjálfstfl. þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að leita eftir kaupum Reykjavíkurborgar á víkingaskipinu Íslendingi og feli borgarlögmanni að eiga viðræður við eiganda skipsins. Í greinargerðinni segir að sigling víkingaskipsins Íslendings frá Íslandi til Ameríku með viðkomu á Grænlandi í tilefni af þúsund ára afmæli landafunda Leifs Eiríkssonar hafi vakið verðskuldaða athygli víða um lönd og með hinni fræknu siglingu hafi skipstjórinn, skipasmiðurinn og eigandinn Gunnar Marel Eggertsson og áhöfn hans lagt af mörkum þýðingarmikið starf við að kynna land og þjóð, sögu hennar og merkingu. Ekki einungis beri sigling skipsins vitni um hugrekki og áræðni heldur sé ekki síður vert að hafa í huga það mikla afrek sem smíði þess var.

Síðan segir að það eigi að vera metnaðarmál borgaryfirvalda í Reykjavík að þar sem fyrsti landnámsmaðurinn reisti sér bú gefist gestum og íbúum gott tækifæri til að kynnast sögu þjóðarinnar. Þess vegna eigi það að vera keppikefli Reykvíkinga að eignast langskipið Íslending sem sé fyrsta fullkomna eftirmynd víkingaskips sem smíðuð sé hér á landi.

Enn segir í greinargerð með þessari tillögu að brýnt sé fyrir Reykvíkinga að nýta vel þau sóknarfæri sem öflug landkynning vegna menningarborgarársins og landafundahátíðahalda mun væntanlega færa. Víkingaskipið mun án efa hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem hingað leggja leið sína og vera ákjósanleg viðbót við þá möguleika sem hér bjóðast. Hægt verður að hafa skipið til sýnis og fræðslu fyrir ferðamenn, skólanema og allan almenning um víkingatímabilið og siglingar víkinga. Skipið getur þannig orðið fyrsti vísir að veglegu sjóminja- og víkingasafni borgarinnar, segir í greinargerð með þessari tillögu sem liggur fyrir borgarráði Reykjavíkur.

Ef ríkið eignaðist þetta skip lægi beinast við að beina því til Sjóminjasafnsins, sem er safn á vegum ríkisins sem annast varðveislu gamalla skipa, að annast skipið. Það eru því greinilega mörg tækifæri ef menn vilja að þetta skip komi til landsins. Af minni hálfu hefur í sjálfu sér ekki verið mótað neitt ákveðið í því efni en ég er reiðubúinn til að hlusta á góðar hugmyndir þingmanna að þessu leyti því að ekkert mundi menntmrh. geta aðhafst í þessu efni nema með virkum stuðningi Alþingis.