Víkingaskipið Íslendingur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:00:37 (1761)

2000-11-15 14:00:37# 126. lþ. 25.3 fundur 149. mál: #A víkingaskipið Íslendingur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Er það virkilega svo að hæstv. menntmrh. sé hættur að hafa skoðanir? Heldur þykir mér vera lágt risið á einum hæstv. ráðherra að koma hingað og fimbulfamba upp úr einhverri tillögu sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg sem enginn hefur tekið eftir og gengur allt of skammt.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði. Engin einstakur atburður í minningu landafundanna hefur vakið jafnmikla athygli og sigling þessa skips vestur um haf. Þar var um afrek að ræða. Smíði þess var líka afrek og auðvitað ber að nýta það á einhvern hátt. Ég tel, eins og hv. þm. leggur til, að það eigi að fá skipið til Íslands og það eigi að gera það að burðarstoð í nýju safni sem reist verður í minningu landafundanna. Það er auðvitað óskaplega lágkúrulegt að heyra að fulltrúi hæstv. ríkisstjórnar ber það á borð fyrir okkur að menn hafi ekkert hugsað út í þetta og það er engin stefna í þessu máli. Og hæstv. menntmrh. hefur bersýnilega ekki lagt málið niður fyrir sér. Hann les bara einhverja pappíra frá félögum sínum í borgarstjórn Reykjavíkur. Hvers konar er þetta eiginlega?