Víkingaskipið Íslendingur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:01:49 (1762)

2000-11-15 14:01:49# 126. lþ. 25.3 fundur 149. mál: #A víkingaskipið Íslendingur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að þessu máli var hreyft hér. Það var greinilega þörf á því miðað við svör hæstv. menntmrh. Það er náttúrlega mjög slæmt að þetta mál skuli ekki þegar vera komið í farveg og hefði átt að liggja fyrir áður en skipið lét úr höfn hvernig framtíð þess yrði síðan tryggð. Það má ekki gerast að þetta mál fari að vefjast upp í vandræðagangi og lágkúru.

Ég vil láta það álit mitt í ljós að það sé langeðlilegast að ríkisstjórnin hafi nú þegar samband við eiganda, skipstjóra og höfuðsmið skipsins og falist eftir forkaupsrétti að skipinu. þ.e. að ef eða þegar eigandinn vill láta það frá sér þá liggi fyrir forkaupsréttur íslenska ríkisins. Það er langeðlilegasta tilhögunin í þessu tilviki og það er heldur rislítið hjá hæstv. menntmrh., eins og hér kom fram áðan, að vísað á tillögur minni hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur með fullri virðingu fyrir honum.

Herra forseti. Það er greinilegt að ríkisstjórnin hefur verið svo upptekin af því að ferðast til Vesturheims og taka þátt í hátíðahöldunum að hún hefur gleymt að hugsa fyrir þessu máli. Nú er kominn tími á að ríkisstjórnin taki á sig rögg og tryggi að þetta mál lendi ekki í útideyfu.