Víkingaskipið Íslendingur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:02:58 (1763)

2000-11-15 14:02:58# 126. lþ. 25.3 fundur 149. mál: #A víkingaskipið Íslendingur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég fagna ummælum hæstv. menntmrh. um áhuga á því að staðsetja Íslending til frambúðar á Íslandi. Það er mikilvægt að það sé gert. Við erum með dýrgrip, þjóðargersemi, sem hefur skilað miklum árangri og það er verðugt verkefni að staðsetja hann hér.

Mér líst mjög vel á þá hugmynd sem liggur fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur um að kaupa skipið, hafa það í nýju menningarhúsi í Reykjavík, gera það að hluta af húsinu. Þannig hefur það verið kynnt og hæstv. menntmrh. hefur tilkynnt að væntanlega verði hafin bygging á því húsi árið 2003 þannig að það er hægt að undirbúa það vel og þar væri það í verðugu hlutverki sem kannski er eitt af höfuðlistaverkum hússins og sögugripur um leið. Þeir sem hafa staðið að smíði þessa skips og framgangi þess, þar á meðal sá sem hér stendur, hafa rætt þetta á mörgum vígstöðvum og víða er áhugi. Það þarf að hnýta þetta upp núna þegar komið er að því að skipið er til sölu.