Útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:24:17 (1774)

2000-11-15 14:24:17# 126. lþ. 25.4 fundur 183. mál: #A útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það er að vísu alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi ákvæði um aukið val í 10. bekk voru ekki í nýju lögunum en þau voru ný hvað varðaði 9. bekk og þeim var líka gefið aukið vægi þannig að nú er virkilega ætlast til að þessu sé framfylgt, þ.e. að það sé um val að ræða. Þetta er auðvitað mjög dýrt fyrir sveitarfélögin og sérstaklega þau litlu, nema það verði þá bara farið út í það að kennarinn velji fyrir hópinn og það var væntanlega ekki meining hæstv. ráðherra þegar hann lét setja þessi ákvæði inn í lögin.

Á eina tegund þessa vals sem er nýtt í lögunum er ekki minnst á hér í dag og það er val nemanda um að geta tekið 9. og 10. bekk saman. Það verður auðvitað aukinn þrýstingur á að komið verði upp slíkum deildum í skólum sem gefa nemendum kost á að taka 9. og 10. bekk saman. Þetta er auðvitað mikill aukakostnaður fyrir sveitarfélögin.