Útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:27:50 (1776)

2000-11-15 14:27:50# 126. lþ. 25.4 fundur 183. mál: #A útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Oft er erfitt að átta sig á því hvort umræðan snýst um gott skólastarf eða fjármál. Í þessu tilliti var ákveðið með lögunum 1995 að valfrelsið yrði þetta sem það er í 9. og 10. bekk. Það lá fyrir þegar grunnskólinn var fluttur frá ríkinu til sveitarfélaganna að þetta væri svona og það var samið við sveitarfélögin á þeim forsendum um flutning fjármuna til grunnskólans og til sveitarfélaganna þegar grunnskólinn var fluttur. Það er algjörlega út í hött hjá hv. þm. og fyrirspyrjanda sem talar hér af mikilli þekkingu um skólamál að láta eins og aðalnámskráin hafi ákveðið þetta. Þetta var ákveðið í grunnskólalögunum. Þetta lá fyrir þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna. Þetta lá fyrir þegar samningarnir voru gerðir þannig að það á ekki að koma neitt á óvart að þriðjungur tímans í 9. bekk er valfrjáls og þriðjungur tímans í 10. bekk er valfrjáls. Þetta vissu sveitarfélögin og þau gengu að þessu þegar við sömdum við þau. Að segja að námskráin komi í bakið á sveitarfélögunum að þessu leyti er algjörlega rangt og ég er undrandi á að hv. þm. hafi þá ekki kynnt sér lögin betur þegar staðið er upp með þessum rökum hér.

Húsnæðismál grunnskólans voru náttúrlega ekki til umræðu þegar við fluttum grunnskólann til sveitarfélaganna. Það var búið að ákveða fyrir löngu að húsnæðismál grunnskólans yrðu í höndum sveitarfélaganna. Það sem við fluttum var kennslan og kostnaður vegna hennar og um það var samið. Um það var samið líka hvernig kennslustundum yrði fjölgað, aukinn kostnað ár frá ári og auknar tekjur ár frá ári til sveitarfélaganna. Þetta liggur því allt fyrir í samkomulagi sem hefur verið staðið við, eins og ég sagði, upp á punkt og prik og enginn hefur andmælt. Hins vegar eru sveitarfélögin í þeirri stöðu, eins og hér hefur komið fram, að þau telja að kostnaðurinn sé meiri. Það er þeirra sjónarmið. Við höfum okkar rök alveg á hreinu líka í þessu og erum reiðubúin til þess að leggja þau á borðið og höfum gert í viðræðum við sveitarfélögin. Það er sérstök nefnd starfandi að þessu verkefni og ég vona að hún komist að góðri niðurstöðu.