Ráðningar í stöður minjavarða

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:30:15 (1777)

2000-11-15 14:30:15# 126. lþ. 25.5 fundur 187. mál: #A ráðningar í stöður minjavarða# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Samkvæmt þjóðminjalögum er landinu skipt í minjasvæði sem eru sjö talsins. Á hverju minjasvæði á að vera minjavörður eða eins og segir í 4. gr. þjóðminjalaga:

,,Á hverju minjasvæði skal starfa einn minjavörður. Hlutverk minjavarða er að hafa umsjón með menningarminjum og fornleifavörslu, skráningu og eftirliti forngripa og gamalla bygginga og vera byggðasöfnum til ráðuneytis og aðstoðar. Minjaverðir skulu að öðru jöfnu hafa sérfræðilega menntun á sviði menningarsögu eða fornleifafræði.``

Herra forseti. Það liggur fyrir hver þessi minjasvæði eiga að vera og búið er að ráða í stöður minjavarða eða þeim hefur verið komið fyrir með tilteknum hætti samkvæmt lögunum. Þannig fer Þjóðminjasafn Íslands með minjavörslu á Reykjanessvæðinu og minjavarsla á Reykjavíkursvæðinu heyrir undir borgarminjavörð. Hins vegar hefur ekki verið settur minjavörður í þrjú af þessum svæðum eftir þeim upplýsingum sem ég hef. Ekki er kominn minjavörður á vestursvæði, ekki á norðursvæði eystra og ekki á suðursvæði. Þegar fjáraukalög eru skoðuð er ekki gott að sjá hvernig hæstv. ráðherra ætlar að koma til móts við það ákvæði laganna sem segir að ráðið skuli í allar stöður minjavarðar fyrir árslok 2000 en í fjáraukalögum fyrir þetta ár er gert ráð fyrir því að fjárheimild Þjóðminjasafns verði aukin um 69 millj. kr. Annars vegar er um að ræða 65 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda og hins vegar er um að ræða 4 millj. kr. til viðgerða á Bygggörðum á Seltjarnarnesi. Þegar síðan er horft til þess frv. til fjárlaga sem hér liggur fyrir og skoðað þar hvernig megi koma þessum stöðum fyrir verður ekki ráðið af þeim texta sem þar er um Þjóðminjasafn að það standi til. Ég vildi þess vegna óska eftir því við hæstv. menntmrh. að hann gerði þinginu grein fyrir því hvernig hann ætlar að framfylgja þessu ákvæði í þjóðminjalögunum um að ráðið skuli í allar stöður minjavarða fyrir árslok 2000.