Ráðningar í stöður minjavarða

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:33:01 (1778)

2000-11-15 14:33:01# 126. lþ. 25.5 fundur 187. mál: #A ráðningar í stöður minjavarða# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið segir í gildandi þjóðminjalögum að landinu skuli skipt í minjasvæði eftir ákvæðum í reglugerð og um þá skiptingu er mælt í reglugerð um þjóðminjavörslu nr. 334/1998 og eru minjasvæðin sjö. Þar sem Þjóðminjasafn Íslands fer að lögum með minjavörslu á Reykjanessvæði og borgarminjavörður á Reykjavíkursvæði er samkvæmt reglugerðinni gert ráð fyrir fimm sérstökum stöðum minjavarða. Þó er þjóðminjaráði heimilt að fela forstöðumanni byggðasafns að gegna hlutverki minjavarðar á hlutaðeigandi minjasvæði með sérstökum samningi.

Frá og með næstu áramótum verður samkvæmt áætlun Þjóðminjasafns búið að ráða í fjórar stöður minjavarðar af þeim fimm sem reglugerðin gerir ráð fyrir, þ.e. á vestursvæðið, norðursvæðið vestra, norðursvæði eystra og austursvæði. Er það í samræmi við launakostnaðarforsendur samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 2000. Óráðið yrði þá aðeins í stöðu minjavarðar á suðursvæði.

Eins og kunnugt er hefur nú verið lagt fyrir Alþingi frv. til nýrra þjóðminjalaga. Er þar áfram gert ráð fyrir skiptingu landsins í minjasvæði samkvæmt ákvæðum í reglugerð og þjóðminjaverði ætlað að ráða minjaverði. Þótt ekki sé þannig gert ráð fyrir sérstökum breytingum frá gildandi reglum á þessu sviði er ekki óeðlilegt að ætla að skiptingin á minjasvæði komi til athugunar að nýju við undirbúning reglugerðar á grundvelli nýrra laga ef samþykkt verða. Fer það eftir því hvernig horfir um afgreiðslu frv. hvort rétt kann að verða talið að leita eftir sérstakri lagaheimild til að fresta fullri framkvæmd bráðabirgðaákvæðis gildandi laga um ráðningu minjavarða.