Ráðningar í stöður minjavarða

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:34:47 (1779)

2000-11-15 14:34:47# 126. lþ. 25.5 fundur 187. mál: #A ráðningar í stöður minjavarða# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ástæða er til að fagna því sem hæstv. ráðherra upplýsir að sé falið í því frv. sem hér liggur fyrir til fjárlaga að innan launaliðar Þjóðminjasafnsins leynast stöður tveggja minjavarða þó að sú þriðja bíði.

Maður veltir því stundum fyrir sér, herra forseti, þegar maður les lög eins og þessi og verið er að vinna upp eða móta starf um landið allt og síðan eru sett inn ákvæði þess efnis að fyrir tiltekinn tíma eigi að vera búið að ljúka tilteknum verkum, eins og í þessu tilfelli er þetta ákvæði sett inn 1997, hvort það sé gert einungis til að friða þá aðila sem ákafastir eru um uppbygginguna. Það er a.m.k. sú tilfinning sem ég hef fengið gagnvart þessu ákvæði. Það er alveg ljóst, herra forseti, að þrjár stöður munu enn standa ómannaðar í lok ársins 2000 og þar með verður engan veginn staðið við ákvæðið til bráðabirgða. Eins og ég sagði áðan er þó fagnaðarefni að það skuli þokast með þessum tveimur stöðum sem eiga samkvæmt orðum hæstv. ráðherra að bætast við á næsta ári en eigi að síður hefur þetta ákvæði ekki verið uppfyllt. Í rauninni ber að harma það að þar sem þetta ágæta tilefni hefur verið til þess ekki bara að flytja störf út á land, herra forseti, heldur að setja peninga í þau störf sem búið er að ákveða að eigi að vera úti á landi, þá skuli það ekki vera gert. Það ber að harma að menn skuli ekki nýta þau tækifæri sem liggja í gildandi löggjöf um uppbyggingu starfa á landsbyggðinni og setja í þau peninga heldur draga lappirnar eins og hér hefur því miður verið gert.