Umgengni um nytjastofna sjávar

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:37:48 (1781)

2000-11-15 14:37:48# 126. lþ. 25.6 fundur 83. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (viðurlög) fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Í 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar er ákvæði til að koma í veg fyrir vonda umgengni um fiskimiðin. Þar er útgerðarmönnum gert skylt að koma með allan afla að landi. Eftir miklar umræður á liðnu sumri um brottkast á miðunum mætti hæstv. sjútvrh. með tillögur sínar um það hvernig ætti að koma í veg fyrir sóun og vonda umgengni á miðunum.

Tillaga hans fólst í fjölgun eftirlitsmanna og kostnaðarþátttöku útgerðar í veru þeirra um borð í fiskiskipunum eftir að sjö dagar á kostnað Fiskistofu væru liðnir. Til að geta metið hvort aukið eftirlit og ný refsiákvæði gætu orðið til bóta er nauðsynlegt að vita hverju það eftirlit, sem stundað hefur verið, hefur skilað og hvernig þeim ákvæðum, sem eru nú þegar í lögum, hefur verið beitt. Ég ber þess vegna eftirfarandi spurningar upp við hæstv. sjútvrh.:

1. Hve margir skipstjórnarmenn og útgerðir hafa verið ákærð fyrir brot á 2. gr. laga nr. 57/1996?

Svarið ætti að gefa okkur innsýn inn í það mat sem eftirlitsmenn hafa haft.

2. Hve margir skipstjórnarmenn og útgerðir hafa verið dæmd til refsingar fyrir brot á 2. gr. þeirra laga?

Svarið við þeirri spurningu ætti að færa okkur heim sanninn um það hvort refsiákvæðin eru raunhæf og framkvæmanleg.

3. Hve oft hefur Fiskistofa beitt úrræðum 2. mgr. 4. gr. laganna?

4. Hve oft hefur ákvæðum 3. mgr. 4. gr. laga þessara verið beitt til að krefja eigendur veiðarfæra um greiðslu kostnaðar?

5. Telur sjávarútvegsráðherra að markmið I. kafla laganna hafi náðst með framkvæmd Fiskistofu á II. kafla þeirra?