Gagnagrunnur um jarðir á Íslandi

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:46:32 (1785)

2000-11-15 14:46:32# 126. lþ. 25.7 fundur 153. mál: #A gagnagrunnur um jarðir á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að varpa fram til hæstv. landbrh. fsp. sem varðar nýtt verkefni sem er að finna í fjárlögum undir liðnum Íslenska upplýsingasamfélagið í kaflanum um landbrn. Þar er gert ráð fyrir því að verja 10 millj. kr. til gagnagrunns um jarðir á Íslandi.

Mikil umræða hefur verið um það hvort ekki eigi að flytja störf innan ríkisgeirans út á land, ekki síst störf sem tengjast hátækni og hugviti, og ég minnist sérstaklega á byggða\-áætlunina í þeim efnum sem var samþykkt hér. En þau góðu áform ríkisstjórnarinnar hafa ekki öll gengið eftir eins og hefur margoft komið fram. Það hefur t.d. verið deilt um það, herra forseti, hvort hæstv. ríkisstjórn hafi tekist að flytja hálft starf eða þrjú störf út á land með þessum hætti og það voru nú öll ósköpin.

Svo vill til að í tengslum við það verkefni sem ég nefndi hér í upphafi máls míns hefur hæstv. landbrh. prýðilegt tækifæri til að leggja svolítið lóð á vogarskálina í þessu efni. Í umræðum við fulltrúa landbrn. innan fjárln. kom fram að um nýtt verkefni væri að ræða. Þess vegna tel ég tilvalið að flytja þetta verkefni til einhverrar þeirrar stöðvar sem hæstv. landbrh. hefur fyrir að ráða úti á landi. Ég hef sérstaklega í huga rannsóknarstöðina á Hólum í Hjaltadal. Það vill svo til að þingflokkur Samfylkingarinnar heimsótti nýverið þessa rannsóknarstöð og við hrifumst ákaflega af því þróttmikla starfi sem þar er unnið og hversu öflugt það lið var sem þar var að störfum.

Það er alveg ljóst að á Hólum í Hjaltadal eru ungir vísindamenn að vinna að ákaflega merkum efnum. Ég fullyrði að a.m.k. á einu sviði má segja að sú stöð sé í fremstu röð í heiminum. Hins vegar tel ég að hægt væri að skjóta digurri stoð undir störf þessarar rannsóknarstöðvar að Hólum með því að flytja þetta tiltekna verkefni um gagnagrunn um jarðir á Íslandi þangað. Ástæðan er sú að vinnan sem tengist gerð gagnagrunnsins byggist á hátækni, hún byggist á tölvubúnaði, hún byggist á nettengdri vinnu og ég held að það sé einmitt það sem þessi stöð hefur þörf fyrir í dag.

Það má ráða af því sem fram kemur í fjárlagafrv. að þetta verkefni um gagnagrunn og jarðir á Íslandi tengist Landgræðslunni. Það vill svo til að hún er einmitt með stórt útibú að Hólum. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. landbrh. hvort hann telji ekki fýsilegt og hvort það sé ekki í anda þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin fylgir að flytja þetta nýja verkefni innan landbrn., gagnagrunn um jarðir á Íslandi, heim að Hólum.