Gagnagrunnur um jarðir á Íslandi

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:49:40 (1786)

2000-11-15 14:49:40# 126. lþ. 25.7 fundur 153. mál: #A gagnagrunnur um jarðir á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. hans ágætu fsp. Ég hef orðið þess var að þau góðu ferðalög Samfylkingarinnar eru að þroska þann flokk. Einhvern tíma sagði ég í umræðu að Samfylkingin væri eins og tómatur sem væri ekki farinn að taka lit en ég sé örla fyrir grænum lit svona með því upplýsingastarfi og ferðalögum sem flokkurinn leggur nú á sig og þakka ég fyrir það.

Ég frétti af þessari heimsókn Samfylkingarinnar til Hóla í Hjaltadal og einhver sagði mér að gáfaðasti maður Samfylkingarinnar hefði spurt sem svo: Hvernig getur það gerst að jafnmikið vísindastarf og hér fer fram þrífst í einum af afdölum Norðurlands? Þurfið þið ekki að vera í Reykjavík eins og hinir?

Þá sögðu vísindamennirnir: Hefur þú ekki áttað þig á því, ágæti þingmaður, að hingað er allt netið komið og allar upplýsingarnar. Við erum í samstarfi við vísindastofnanir og skóla úti um allan heim. Hér höfum við næði til að vinna, hér er friður, hér er farsæld yfir störfum.

Það er mikilvægt að menn kynnist og sjái í hverju það er fólgið að reka sterkar vísindastofnanir. Hólaskóli er vissulega sá staður á Íslandi sem fagnar því í dag að hafa flesta erlenda nemendur. Þangað sækja erlendir nemendur í stórum stíl, ekki síst í íslenska hestinn, þannig að þetta er glæsileg vísindastöð og skólastaður í miklum framgangi.

Ég vil sjá Hólastað efla sig í störfum, hann á mikla möguleika. Hann fer núna fyrir þremur stórum þáttum sem skipta íslenskan landbúnað miklu, fiskeldið er þar grundvöllur starfsins og fiskeldið á mikla möguleika fyrir sér fái það að þróast á Íslandi eins og víða annars staðar. Hrossaræktin og reiðmennskan er sú íþrótt á Íslandi og atvinnugrein sem heillar menn hvort sem þeir búa í þéttbýli eða dreifbýli. Heimsbyggðin stendur með okkur á því sviði.

Svo er það ferðaþjónustan sem mun fá vaxandi möguleika á Hólum og í þjóðfélaginu. Silfur framtíðarinnar liggur í ferðaþjónustunni og ferðaþjónustan verður ekki að lífi eða starfi nema íslenski bóndinn sé þar grundvöllur. Hólaskóli er lykill landbrh. í þeim störfum. Nú hefur það gerst á þessu hausti að þeir Hólamenn hafa fellt sauðfé sitt til að geta einbeitt sér enn betur að ferðaþjónustubrautinni og verður það gert.

Ég verð svo hins vegar að hryggja hv. þm. með því að það er ekki nýtt verkefni sem hann spurði um. Ég get ekki flutt þetta verkefni, Nytjaland. Það má segja að þrjú verkefni séu mjög stór á þessu sviði. Það er í fyrsta lagi jarðaskrá lögbýla sem er unnin frá Hvanneyri í gegnum Hagþjónustu landbúnaðarins. Það er í öðru lagi verkefnið Brúum bilið sem unnið er í Gunnarsholti og er verkefni sem er nú að fara á fullt skrið. Brúum bilið er landsupplýsingakerfi og gagnagrunnur til nota fyrir bændur, áhugafólk um landgræðslu og skógrækt, almenning, nemendur og menntastofnanir til að þeir hafi aðgang að þessu öllu.

Svo er það þetta stóra verkefni sem hv. þm. minnist hér á, það er Nytjalandið, og Nytjaland er samstarfsverkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Bændasamtaka Íslands og Landgræðslu ríkisins og með því unnið að gerð gagnagrunns fyrir landgæði allra bújarða landsins. Verkefnið er upprunalega þróað af starfsmönnum RALA m.a. í framhaldi verkefnisins Jarðvegsvernd sem fékk náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlanda. Þetta verkefni er ekki nýtt af nálinni en það er nú á hraðskriði, ekki síst út af nýjum sauðfjársamningum til að gæðastjórnunin geti náð þar árangri. Þetta verkefni er verið að vinna að fullu uppi á Rannsóknastofnun landbúnaðarins og þó það gæti vel verið vistað einhvers staðar annars staðar get ég því miður ekki lýst því yfir hér og nú að það eigi að fara að Hólum. Ég álít samt sem áður að mörg verkefni þurfi að fara á menntastofnanir okkar hvort sem þær heita Hólar, Hvanneyri eða Reykir í Ölfusi og stend með hv. þm. í hugsjón hans og nýrri lífssýn.