Gagnagrunnur um jarðir á Íslandi

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:59:30 (1790)

2000-11-15 14:59:30# 126. lþ. 25.7 fundur 153. mál: #A gagnagrunnur um jarðir á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er nú betur að sér en hann lætur í veðri vaka. Ég nefni í einni andrá eina stofnun sem var vígð á Selfossi í vor og heitir Lánasjóður landbúnaðarins með átta störfum. Það þýðir ekki að hafa svona málflutning hér uppi, það er rangt. Fyrir utan hitt að verið er að gera marga góða hluti á mörgum stöðum.

[15:00]

Aðalatriðið er náttúrlega að minnast þess að ríkisstjórnin og þessir stjórnarflokkar hafa snúið umræðunni og þróuninni í landinu við. Atvinnuleysið er horfið. (Gripið fram í: Úti á landi?) Atvinnuleysið er horfið, það er sókn í öllum byggðum. (Gripið fram í.) Menn koma með glæsilegar hugsjónir af því að það er bæði til fjármagn, vilji og þekking til þess að fara í ný tækifæri. Síðast í gær voru hjá mér Dalamenn. Það var glæsileg hugsjón. Ríkisstjórnin reynir að fylgja þessu eftir og þarf að eiga stuðning stjórnarandstöðunnar en ekki niðurrif hennar í þessum málum. Þið eigið ekki alltaf að tala niður til landsbyggðarinnar. Þar er fólk að gera góða hluti og við reynum að standa við bakið á því fólki.

Hvað þetta verkefni varðar þýðir náttúrlega ekki fyrir menn að segja að það sé sorglegt að fé sé fallið á Hólum. Ég er þeirrar skoðunar sem landbrh. að bændurnir þurfi sjálfir að framleiða sem mest af þeim vörum. Ríkisbúin og skólarnir eiga í sjálfu sér ekki að standa í því. Þeir eru þekkingarstofnanir. Auðvitað þarf að vera búpeningur, við höfum staðsett hrossin á Hólum, sauðféð á Hesti, kýrnar á Hvanneyri o.s.frv. --- En þessi gagnagrunnur. Ég trúi ekki að fólk mitt hafi farið með rangt mál. Það hefur þá verið misskilningur á báða bóga. Menn hafa verið daufgerðir þann morgun í fjárln. og verið annars hugar ef svo hefur verið. (Gripið fram í.) Ég hef spurt mína menn um það verkefni sem hv. þm. spyr um. Það hefur verið þekking á því bæði í landbrn. og annars staðar þar sem ég hef spurt að Nytjalandið er á fullri ferð á Rannsóknastofnun landbúnaðarins. En ég mun beita mér fyrir því sem landbrh. að horfa björtum augum til þeirra staða sem við höfum nefnt hér, flytja þangað verkefni og styrkja þá í nýrri sókn.