Ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:09:13 (1793)

2000-11-15 15:09:13# 126. lþ. 25.8 fundur 186. mál: #A ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég er afskaplega fylgjandi því að verkefni flytjist til sveitarfélaga en ég mun seint styðja að skipulagsmálin fari alfarið til sveitarfélaganna vegna varnarleysis íbúa gagnvart framkvæmdagleðinni eins og gerist aftur og aftur. Við höfum horft upp á það að skipulagsslys var í uppsiglingu í Vatnsendalandi í Kópavogi sem hefur vonandi verið afstýrt og það minnir okkur á að við verðum með öllum ráðum að tryggja ákveðna vernd með lögum og reglugerðum fyrir íbúana og gagnvart náttúruperlum. Ég tók eftir því að ráðherrann nefndi í svari sínu 50 m utan þéttbýlis og vísaði til aðal- og deiliskipulags. Oft verða oft mjög miklar deilur um aðal- og deiliskipulag og sérstaklega varðandi deiliskipulagið fer það til Skipulagsstofnunar. Mér hefur því miður fundist að þegar deilur verða hjá íbúum í sveitarfélagi og málið fer til Skipulagsstofnunar endi það alloft þannig að það falli sveitarfélaginu í hag. En það er alveg ljóst að betur verður að tryggja rétt íbúanna gagnvart offorsi einstaklinga við völd í sveitarstjórnum.