Ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:13:29 (1796)

2000-11-15 15:13:29# 126. lþ. 25.8 fundur 186. mál: #A ákvæði skipulagsreglugerðar um nálægð byggðar við vötn, ár eða sjó# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Umhvrh. hefur ekki vald samkvæmt neinum lögum til að setja skipulagsáætlanir í umhverfismat og ég veit að hv. þm. er kunnugt að umhverfismatslöggjöfin tekur á einstökum framkvæmdum. Það kom ítarlega til umræðu varðandi laxeldi fyrir stuttu að umhverfismatslöggjöfin tekur á einstökum framkvæmdum en ekki áætlunum. Hins vegar er á vettvangi Evrópusambandsins verið að vinna núna að slíku og í framtíðinni verður umhverfismat með einhverjum hætti framkvæmt á áætlunum en ekki eins og framkvæmdin er núna, á einstökum framkvæmdum. Þá munu menn skoða vegáætlanir, hafnaáætlanir o.s.frv. En löggjöfin er ekki þannig í dag að okkur sé unnt að umhverfismeta skipulagsáætlanir.

Það er alveg ljóst að skipulagsmál eru í höndum sveitarfélaganna. Þar er ferlið. Menn fara í gegnum það og í þessu tilviki er mér ekki kunnugt um að menn hafi verið að brjóta lög á nokkurn hátt. Þegar ráðherra staðfestir aðalskipulag er ráðherra ekki að gera það með neinum öðrum hætti en formlegum. Það er ekki verið að breyta skipulaginu þá og ráðherra getur ekki hafnað því að undirskrifa það skipulag. Ferlið hefur farið fram á vettvangi sveitarfélaga. Það er í heimabyggðinni sem menn þurfa að taka á þessum málum og að sjálfsögðu uppfylla þau lög og reglugerðir sem ríkja varðandi skipulagsmálin á Vatnsendasvæði og aðra hagsmuni. Ég tel ekki að ráðherra geti farið að blanda sér inn í deilur sem verða afar oft um skipulagsmál sveitarfélaga.