Miðlægur gagnagrunnur lyfjanotkunar

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:15:59 (1797)

2000-11-15 15:15:59# 126. lþ. 25.9 fundur 221. mál: #A miðlægur gagnagrunnur lyfjanotkunar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Kostnaður við heilbrigðisþjónustuna eykst stöðugt og hafa margir þættir áhrif á þá þróun; hækkandi aldur þjóðarinnar, meiri þekking á sjúkdómum og möguleikar til lækninga, bæði með aðgerðum og lyfjum. Fólk fylgist vel með hugsanlegum meðferðarúrræðum og gerir meiri kröfur til heilbrigðiskerfisins en áður. Lyfjanotkun hefur aukist og stöðugt koma ný lyf á markaðinn, annaðhvort endurbætt lyf eða alveg ný lyf sem lækna eða bæta líðan sjúklinga með sjúkdóma sem ekki hefur áður verið til viðhlítandi meðferð á. Ný lyf eru oft mjög dýr fyrst eftir að þau koma á markaðinn og því er ábyrgð lækna mikil þegar þau eru valin í stað eldri sambærilegra lyfja. En þegar alveg ný lyf koma fram þá er augljóslega eftirspurn eftir þeim hjá mörgum, bæði læknum og sjúklingum.

Lyf eru stærsti útgjaldaliður sjúkratrygginga. Reynt hefur verið að halda þeim kostnaði niðri fyrir ríkissjóð, m.a. var áætlað að spara einn milljarð á þessu ári og koma kostnaðnum yfir á neytendur en sú áætlun gekk ekki eftir nema að hluta. Með þeim aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til og leiða til aukinnar þátttöku sjúklinga er áætlað að allt að 200 millj. kr. sparist á næsta ári.

Herra forseti. Í fjárlagafrv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Því til viðbótar áformar ráðuneytið að ná þeim sparnaði á næsta ári, sem á vantar, m.a. með endurskoðun á smásöluverði, útgáfu viðmiðunarverðskrár og endurskoðun á greiðsluþátttöku í nýjum lyfjum. Þá er enn áformað að taka upp nýtt greiðsluþátttökukerfi en markmið þess er að flytja greiðsluþátttöku almannatrygginga frá einstaklingum með lítinn lyfjakostnað yfir til þeirra sem nota mikið af lyfjum.``

Herra forseti. Hér er verið að boða breytingu frá núverandi kerfi. Því er mikilvægt að fá upplýsingar um með hvaða hætti áætlað er að fylgjast með lyfjanotkun einstaklinga svo hægt sé að ná þessu markmiði.

Því spyr ég hæstv. heilbrrh.:

1. Verður komið upp miðlægum gagnagrunni sem hafi að geyma upplýsingar um lyfjanotkun einstaklinga?

2. Munu lyfjaverslanir hafa aðgang að þeim gagnagrunni ef hann verður settur upp?