Miðlægur gagnagrunnur lyfjanotkunar

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:18:21 (1798)

2000-11-15 15:18:21# 126. lþ. 25.9 fundur 221. mál: #A miðlægur gagnagrunnur lyfjanotkunar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Austurl. spyr tveggja spurninga um miðlægan gagnagrunn lyfjanotkunar.

Eins og kom fram í máli hv. þm. er hún fyrst og fremst að tala um það sem stendur í fjárlagafrv. um að Tryggingastofnun ríkisins niðurgreiði lyf. Það hefur verið í umræðunni undanfarið.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Verður komið upp miðlægum gagnagrunni sem hafi að geyma upplýsingar um lyfjanotkun einstaklinga?``

Svarið við því er þetta: Verði hið svokallaða danska endurgreiðslukerfi tekið upp þarf að koma upp gagnagrunni sem hefur að geyma upplýsingar um heildarlyfjakostnað einstaklinga. Ég undirstrika að við erum hér að tala um fjárhæðir eða upplýsingar um heildarverð lyfja. Það er forsenda fyrir því að hægt sé að reikna út greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar strax á staðnum og því til hagsbóta fyrir þann sem kaupir lyf. Við erum ekki að tala um viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Við erum alls ekki að tala um að setja upp miðlægan gagnagrunn um lyfjanotkun einstaklinga eða hópa eins og spurt er um. Lyfjanotkun er allt annar handleggur og ég þakka hv. þm. fyrir að spyrja og gefa mér hér tækifæri til að svara. Það væri slæmt ef sá misskilningur væri uppi sem hér kom fram í fyrirspurninni.

Í öðru lagi er spurt: ,,Munu lyfjaverslanir hafa aðgang að þeim gagnagrunni ef hann verður settur upp?``

Svarið er þetta: Lyfjaverslanir hefðu að sjálfsögðu aðgang að upplýsingum um heildarlyfjaútgjöld viðkomandi innan ársins til að hægt sé að reikna út endurgreiðsluhlutfall viðkomandi. Öðruvísi væri þetta að sjálfsögðu ekki hægt.

En ég vil endurtaka til að það sé enginn misskilningur í því máli að hér er ekki verið að tala um lyfjanotkun, heldur lyfjakostnað og engar persónulegar upplýsingar.