Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:24:39 (1802)

2000-11-15 15:24:39# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Sá tími nálgast að Schengen-samningurinn svokallaði gengur í gildi hér á Íslandi og annars staðar á Schengen-svæðinu ef að líkum lætur. Af og til skýtur upp kollinum umræða um líkleg áhrif af tilkomu þessa samnings og kennir þar ýmissa grasa. Í umræðum um aðild okkar að samningnum, hversu fýsilegur kostur það væri, og eins síðar hafa aftur og aftur skotið upp kollinum áhyggjur manna af því að tilkoma samningsins og afnám landamæraeftirlits á þessu stóra svæði muni reynast skeinuhætt í baráttunni við dreifingu ólöglegra fíkniefna hér í Evrópu.

Fyrir nokkru síðan, nánar tiltekið í fyrri hluta októbermánaðar, birtist viðtal hér í fjölmiðlum við einn af yfirtollvörðum ríkistollstjóra sem lýsti áhyggjum sínum af því að baráttan gegn innflutningi á fíkniefnum gæti orðið erfiðari eftir að Schengen-samkomulagið gengur í gildi á næsta ári. Ég hef þar af leiðandi leyft mér að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra um undirbúning undir gildistöku samningsins að þessu leyti og einnig hvort líklegt sé að fyrirhuguð tímasetning gildistöku Schengen-samningsins gangi eftir.

Það mál er að sjálfsögðu ekki eingöngu í höndum hæstv. dómsmrh. ... --- Ef ráðherrar vildu leggja eyrun við. Ég bara bíð, herra forseti, þangað til ráðherrar hafa lokið fundi sínum. Kannski er ýmislegt óklárt í þessu máli eins og þessi skyndifundur hér í þingsalnum bendir til. --- Það mætti nefna fleira og það er ánægjuefni að hæstv. ... (Utanrrh.: Það er auðvitað ráðherra sem ber ábyrgð á málinu líka.) Já, það er ánægjulegt að hæstv. utanrrh. er hér í salnum en það var spurt hér sérstaklega um fíkniefnin og þann þátt þess máls sem snýr að dómsmrh.

Einnig mætti spyrja hæstv. dómsmrh. um þá hluti sem lúta að persónuvernd og persónuskilríkjum og hefur orðið mjög að umtalsefni. Þannig er að í umfjöllun fjölmiðla í Svíþjóð og Danmörku er því nú haldið fram að aðild Norðurlandanna að Schengen-samningnum muni jafnvel brjóta niður hið svokallaða norræna vegabréfasamband, öfugt við það sem haldið var fram, að því ætti einmitt að bjarga með aðild okkar að Schengen-samningnum.

Nýlega hélt eftirlitsstofnun Schengen-svæðisins blaðamannafund og lýsti þar þeirri skoðun sinni að upplýsingakerfið SIS bryti allar reglur um lýðræðislega og réttarfarslega meðferð persónuupplýsinga. Um leið var lýst mikilli óánægju með að aðildarríki Schengen-samningsins hefðu ekki lagt þessari eftirlitsstofnun til neina fjármuni til að axla sínar skyldur.

Þar af leiðandi, herra forseti, er ærin ástæða til að spyrja hvort eigi, þrátt fyrir þessa vankanta, að láta verða af fyrirhugaðri gildistöku Schengen-samningsins strax í marslok nk.?