Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:33:04 (1804)

2000-11-15 15:33:04# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur greint frá margvíslegum aðgerðum sem ráðuneytið hefur staðið fyrir til að berjast gegn flæði fíkniefna inn í landið. Í ljósi þess tel ég að hún sé undarleg sú neikvæða umræða sem hefur verið í gangi undanfarið um málefni fíkniefnalögreglunnar. Ég velti fyrir mér ástæðunum fyrir því. Ég held að öllum sé ljóst að lögreglan hefur náð ótrúlegum árangri í baráttunni við fíkniefnin á undanförnu ári. Aldrei hefur verið meira af fíkniefnum verið gert upptækt eða jafnmargir þungir refsidómar fallið. Lögreglan á hrós skilið fyrir þennan árangur.

Það hefur m.a. verið rætt um yfirvinnubann á fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Ég veit ekki betur en að yfirstjórnendur lögreglunnar hafi sjálfir lýst því yfir að ekkert slíkt bann sé í gildi. Tölur lögreglunnar sýna fram á hundruð yfirvinnutíma deildarinnar síðustu mánuði. Hins vegar er alveg ljóst að fjöldi yfirvinnutíma á ekki að vera mælikvarði á árangur, það er miklu frekar skipulag og starfsaðferðir. Ég sé ekki betur en þær virðist vera í lagi.