Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:34:22 (1805)

2000-11-15 15:34:22# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í tengslum við þessa fsp. þykir mér rétt að gera grein fyrir því að starfsemi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli hefur verið endurskipulögð. Nýtt skipurit fyrir hana mun taka gildi um næstu áramót. Stöðugildi hafa verið færð milli deilda í því skyni að efla þær auk þess sem í undirbúningi er að ráða nýja lögreglumenn til embættisins.

Starfsemi fíkniefnadeildar tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli var endurskipulögð fyrir rúmi ári og tollgæslumönnum fjölgað um tvo. Starfsmenn tollgæslunnar hafa fengið aukna þjálfun í starfi, m.a. hjá starfsbræðrum sínum í Danmörku, Kanada, Svíþjóð og Hollandi. Verulegur árangur hefur náðst í kjölfar þessara breytinga og er stefnt að því að efla tollgæsluna á Keflavíkurflugvelli enn frekar á næstu mánuðum. Sú breyting er í sjálfu sér óháð þátttöku okkar í Schengen.

Hæstv. dómsmrh. hefur gert grein fyrir samvinnu við fíkniefnalöggæslustofnun Bandaríkjanna en ég vil að lokum taka það fram vegna þessarar fsp. að eftirlit með innflutningi fíkniefna um Keflavíkurflugvöll mun ekki á nokkurn hátt skerðast við gildistöku Schengen-samkomulagsins, enda munu reglur um tollaeftirlit almennt ekki breytast við það. Vitanlega mun þurfa að laga starfsemina að nýjum aðstæðum hvað varðar stækkun flugstöðvarinnar og breyttar reglur um persónueftirlit. Það er engin nýlunda að aðstæður og fjölþjóðareglur taki breytingum og hefur tollgæslan í tímans rás þurft að takast á við mörg vandamál í þeim efnum, bæði varðandi eftirlit með fíkniefnum og annað tolleftirlit.