Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:36:05 (1806)

2000-11-15 15:36:05# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Fíkniefnasala og dreifing er afar umfangsmikil starfsemi og er iðulega skipulögð til hins ýtrasta. Um er að ræða harðsvíraða glæpamenn sem miskunnarlaust ætla sér að græða á veikleikum annarra einstaklinga.

Hér á Íslandi höfum við náð gríðarlega góðum árangri á undanförnum árum við að komast yfir fíkniefni sjálf og uppræta þá skipulögðu starfsemi sem þeim fylgir. Slíkur árangur fellur auðvitað ekki af himnum ofan heldur næst hann með markvissri stjórnun og frábæru starfsfólki. Það er auðvitað ljóst að allt kapp verður lagt á, ekki bara að viðhalda eftirlitinu heldur einnig auka það, bæta og efla. Það getum við m.a. gert í krafti alþjóðlegrar lögreglussamvinnu, eins og hæstv. dómsmrh. kom inn á áðan, sem er eitt af höfuðmarkmiðum Schengen-samningsins. Enginn stjórnmálamaður, innlendur eða erlendur, ætlar sér að auðvelda þessum glæponum leikinn, síður en svo. Í þessu stríði þurfum við samstöðu en ekki sundrung.