Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:37:19 (1807)

2000-11-15 15:37:19# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki augljóst að þetta Schengen-samkomulag leiði til þess að þægilegra verði að fylgjast með fíkniefnainnflutningi til landsins. Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að það verði mun erfiðara og kostnaðarsamara. Þeim mun mikilvægara er að það verði þá undirbúið og tekið á því af festu. Ég held að það sé málið sem við stöndum frammi fyrir sé ætlunin að fylgja eftir þessari Schengen-aðild með þeim hætti sem grunnurinn hefur verið lagður að.

En ég leyfi mér hér með að spyrja, herra forseti, um þjálfun og endurmenntun á löggæslumönnum vítt og breitt um landið. Ætlunin var að halda námskeið og tryggja að þeir gætu sótt slík námskeið. Hefur verið veitt sérstakt fjármagn til þess arna, til hinna ýmsu sýslumannsembætta eða lögregluembætta svo þau gætu sent menn sína á slík námskeið án þess að skerða þær fjárveitingar sem þeir annars höfðu og hvernig hefur slíkt námskeiðahald gengið?