Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:40:52 (1810)

2000-11-15 15:40:52# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir svörin en verð þó að segja að ég er harla litlu nær. Hæstv. ráðherrar skjóta sér á bak við þá staðreynd, sem er alþekkt, að heimild til tollskoðunar hverfur ekki, þ.e. til að leita í farangri. En hitt er staðreynd að persónueftirlit á landamærum hverfur. Það verður beinlínis ólöglegt að biðja menn um skilríki á landamærum ríkja. Með öðrum orðum: Maður sem kemst inn á Schengen-svæðið á landamærum Tyrklands eða Búlgaríu eða með báti að næturlagi frá Afríku til Spánar getur eftir það ferðast óhindrað um allt svæðið án þess að heimilt sé að krefja hann um persónuskilríki á landamærum. Þetta er staðreynd.

Þessu tengjast áhyggjur tollvarða, ríkislögreglustjóra, ríkistollstjóra, landlæknis og fleiri manna í umsögnum til Alþingis og viðtölum við fjölmiðla á undanförnum mánuðum. En þetta er, segja hæstv. ráðherrar, allt saman misskilningur hjá þessum góðu mönnum. Við vitum þetta betur, þetta verður allt í himnalagi.

Hvað segir hæstv. dómsmrh. Íslands um álit JSA, hinnar óháðu eftirlitsstofnunar með SIS-upplýsingakerfinu? Í fréttatilkynningu frá þeim samtökum segir, með leyfi forseta:

,,The Schengen Information System, SIS, is outside of any democratic or judicial control and is wideopen to abuse by member states which may lead to violation of citizen rights or privacy.``

Þarna er gengið mjög langt í því að fullyrða að þetta upplýsingakerfi með upplýsingum um 10 millj. manns á Schengen-svæðinu sé ólöglegt. Verði það nú dæmt af eða notkun þess hindruð ætla menn þá samt sem áður að halda sig við að afnema persónueftirlit á landamærum, opna allar gáttir og reyna að telja okkur trú um að það sé ekki neikvætt í því sambandi að reyna að hefta hér innflutning ólöglegra vímuefna? Eru sem sagt áhyggjur allra, jafnt hér á landi sem annars staðar, af þessu máli bara tómur misskilningur?