Fíkniefnanotkun í fangelsum

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:45:30 (1812)

2000-11-15 15:45:30# 126. lþ. 25.11 fundur 204. mál: #A fíkniefnanotkun í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu fíkniefnavandinn er mikill og illviðráðanlegur og ljóst að sölumenn dauðans virða engin landamæri og enga múra eins og kom ljóslega fram í umræðu um fyrirspurn sem er rétt nýlokið.

Annað slagið er það samt þannig að fréttir berast um notkun fíkniefna innan fangelsa, innan múra meðal fanga. Nú á það svo að heita að fangavist heiti betrunarvist og það er því miður líka fyrirliggjandi að mörg afbrot fanga, sem fangar hafa framið, má rekja beint eða óbeint til notkunar fíkniefna. Það hefur líka verið jákvæð þróun innan veggja fangelsanna til að aðstoða fanga við að losna við þessa fíkn í áfengi eða ólögleg fíkniefni, annaðhvort á meðan fangavistin hefur staðið eða við lok hennar og jafnvel utan fangelsa á viðurkenndum meðferðarstofnunum.

Þess vegna er algjörlega úr takti, ef sannleikskorn er í þeim fullyrðingum sem heyrast gjarnan frá fyrrum föngum eða aðstandendum þeirra sem eru að afplána refsingu, að fíkniefnanotkun, jafnvel almenn, sé til staðar í fangelsum hér á landi. Einkum er Litla-Hraun nefnt í því samhengi. Þar eru menn vitaskuld veikir fyrir. Þar er misjafn sauður í mörgu fé. Sumir eru þar með einlægum hug að berjast við fíkn sína og þurfa því allt annað en framboð af þessum eiturlyfjum fyrir framan sig frá einum tíma til annars.

Baráttan gegn fíkniefnum er að sönnu mjög erfið eins og ég gat um í upphafi. Ef hins vegar er ekki hægt að koma í veg fyrir notkun innan fangelsa í því verndaða umhverfi er fokið í flest skjól. Hvar þá?

Spurningar vakna. Hvernig komast þessi fíkniefni inn fyrir múrana? Hvernig fer dreifing fram innan fangelsanna? Hvernig má það vera að fangaverðir og yfirmenn fangelsanna verða ekki varir við ef slíkt fer fram? Nú er ljóst að leitað er á gestum og gangandi. Margar spurningar vakna því.

Ég ætla að hafa allan fyrirvara í spurningum mínum og spyr því fyrst: Er þetta svona? Eru þess nýleg dæmi að fíkniefnamál hafi komið upp innan veggja fangelsanna? Ef það er svo, hvernig má það vera? Og í þriðja lagi: Er það e.t.v. þannig að upplýsingar vanti um þessi mál? Hefur rannsókn ekki farið fram? Eru áformaðar slíkar athuganir sem taki á öllum endum þess máls sem ég hef hér fært í tal?