Fíkniefnanotkun í fangelsum

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:54:45 (1815)

2000-11-15 15:54:45# 126. lþ. 25.11 fundur 204. mál: #A fíkniefnanotkun í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að ákveðin þverstæða sé í því að lögbrot séu framin í fangelsum, þ.e. að þar sé neysla fíkniefna, þannig að þetta er snúið mál. Dómsmrh. upplýsti í ræðu sinni áðan að mun minna hefur verið vart um fíkniefnaneyslu á Litla-Hrauni nú en áður. Í ræðunni kom einnig fram að margvíslegum úrræðum og aðgerðum hefur verið beitt til þess að stemma stigu við fíkniefnaneyslu fanga í fangelsum og var margt nefnt til. Ég er sannfærð um að starfsfólk í fangelsum leggur sig allt fram til að koma í veg fyrir lögbrot af þessu tagi inni í fangelsum.

En hvaða önnur úrræði eru til staðar en þau sem hafa verið nefnd hér áður? Hvaða úrræði eru það sem hv. þm. telur að grípa eigi til? Hann hlýtur að hafa slíkar tillögur. Vill hann t.d. banna heimsóknir? Vill hann rjúfa samband fanga við umheiminn og slíta sambandi þeirra við þá sem eru þeim tilfinningalega nánir? Er þetta til þess fallið að gera afbrotamennina að betri mönnum? Þetta eru úrræði sem skerða mannréttindi fanga sem ég er ekki tilbúin að taka þátt í.