Launagreiðslur fanga

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 16:03:30 (1820)

2000-11-15 16:03:30# 126. lþ. 25.14 fundur 134. mál: #A launagreiðslur fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert hversu margar fyrirspurnir eru til hæstv. dómsmrh. í fyrirspurnatímum Alþingis. Ég held að það sé langt síðan það var annað eins og það segir okkur að hæstv. ráðherra hefur þó tekist að draga þetta ráðuneyti upp úr skúffunni þar sem það hefur verið um allt of langan tíma.

Í lögum um fangelsi og fangavist segir í 13. gr. að í fangelsum skuli vera aðstaða og tæki til fjölbreyttrar vinnu. Fanga ber að vinna þau störf sem honum eru falin og fanga skal greiða laun fyrir vinnuna og skal tekið tillit til arðsemi vinnunnar og launa á almennum vinnumarkaði við ákvörðun launa. Síðan er ákvæði þess efnis að vinnulaun megi taka upp í greiðslur á skaðabótum eða öðrum útgjöldum sem fanginn verður ábyrgur fyrir meðan hann er að afplána refsingu.

Nú er það svo að ekki er aðstaða í öllum fangelsum landsins til að veita vinnu en þó eru hún til eins og á Litla-Hrauni, í Kópavogi, Kvíabryggju og á öðrum stöðum, líka á Akureyri. Fangar stunda þar vinnu mjög margir sem eru í afplánun og er það mjög ánægjulegt. Sumir hverjir fá langa dóma og stunda vinnu hvern virkan dag og fá fyrir það greidd einhver laun.

En þegar sá fangi hefur afplánað í langan tíma og kemur aftur út í þjóðfélagið og ætlar að leita sér að vinnu er ekki alltaf auðvelt fyrir fyrrverandi refsifanga að fá vinnu. Þá á að leita á náðir atvinnuleysisbóta eða annarra möguleika til að afla sér tekna á meðan atvinnu skal leitað og þetta er auðvitað hluti af endurhæfingu fanga. Þá bregður hins vegar svo við að viðkomandi einstaklingur á engan rétt. Hann á engan rétt vegna þess að af honum hafa ekki verið greidd tryggingagjöld þó hann hafi unnið mánuðum saman, jafnvel árum saman innan veggja fangelsa. Það kemur í ljós, eftir því sem ég best veit, að ekki eru greidd opinber gjöld af launagreiðslum innan fangelsa. Ekkert í lögum veitir undanþágu launagreiðanda. Þó það sé ríkið og stofnun á vegum ríkisins sem greiðir laun til refsifanga eru engar slíkar undanþágur finnanlegar í íslenskum lögum sem heimila ríkinu þetta.

Ríkisstofnun eins og Litla-Hraun rekur vinnu þar sem m.a. eru framleiddar númeraplötur. Slík starfsemi hefur líklega verið boðin út og Litla-Hraun fengið á allt öðrum forsendum en aðrir sem bjóða í. Það er umhugsunarvert ef ríkið stendur fyrir svartri atvinnustarfsemi og stundar hrein og klár skattsvik vegna þess að hvergi í lögum eru heimildir til annars en að greiða opinber gjöld af launum fanga. Nú eru þeir sjálfsagt undir skattleysismörkum, en það gildir ekki um tryggingagjald. Það skal greiða af útgreiddum launum. Líklega má einnig fullyrða að það ætti að greiða í lífeyrissjóð af launum fanga.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

Eru greidd laun fyrir alla vinnu sem fangar inna af hendi á meðan á fangelsisvist stendur?

Ef svo er, um hversu háar greiðslur er að ræða og eru greidd opinber gjöld af þeim launagreiðslum?