Launagreiðslur fanga

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 16:06:57 (1821)

2000-11-15 16:06:57# 126. lþ. 25.14 fundur 134. mál: #A launagreiðslur fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég undrast nokkuð þau stóru orð sem hv. fyrirspyrjandi notar hér, talar um skattsvik og annað því um líkt. En hún spyr í tveimur liðum:

Eru greidd laun fyrir alla vinnu sem fangar inna af hendi á meðan á fangelsisvist stendur?

Ef svo er, um hversu háar greiðslur er að ræða og eru greidd opinber gjöld af þeim launagreiðslum?

Varðandi fyrri spurninguna er kveðið á um vinnu og vinnuskyldu fanga í 13. gr. laga um fangelsi og fangavist og nám fanga í 14. gr. laganna. Föngum eru greidd laun fyrir alla vinnu sem þeir inna af hendi á meðan á fangavist stendur. Föngum sem stunda nám eru greidd laun fyrir það eins og vinnu og jafngildir þá hver kennslustund einni klst. í vinnu. Um launagreiðslurnar gildir reglugerð um vinnu, nám og dagpeninga til afplánunarfanga nr. 409/1998. Um vinnu fanga er einnig ákvæði í 71.--76. gr. evrópsku fangelsisreglnanna og framkvæmd á Íslandi er í samræmi við þær reglur.

Varðandi seinni spurninguna eru skv. 7. gr. reglugerðar nr. 409/1998 laun fyrir hverja unna klst. 220, 250, 275 eða 290 kr. Tímakaupið fer eftir eðli starfs og ákveður Fangelsismálastofnun hvernig launa beri einstök störf. Fanga er skylt að vinna þau störf sem honum eru falin eða stunda nám í þess stað. Vinnan eða námið er því hluti af refsivistinni, hv. fyrirspyrjandi.

Vinna og nám fanga þjóna þeim tilgangi að gefa kost á að nýta tímann til gagnlegra verka, læra almenn vinnubrögð og njóta endurhæfingar á meðan á fangavistinni stendur. Fyrir þetta eru greidd laun og er nám lagt að jöfnu við vinnu. Því er litið svo á að ekki sé um að ræða laun í venjulegum skilningi þess orðs heldur þóknun fyrir ástundun þeirrar vinnu og nám sem í boði er. Opinber gjöld hafa aldrei verið innheimt af laununum.

Heildarlaunagreiðslur til fanga á árinu 1998 voru 19.796 þús. kr. og á árinu 1999 21.861 þús. kr. Að jafnaði voru um 110 fangar í fangelsum hvern dag 1998 og 93 árið 1999.

Rétt er að geta þess að í byrjun þessa árs barst ráðuneytinu minnisblað frá ríkisskattstjóra þar sem talið var að greiðslur sem greiddar eru föngum samkvæmt framangreindri reglugerð væru skattskyldar tekjur og bæri því m.a. að greiða af þeim tryggingagjald. Þetta skapar hins vegar ýmis vandamál í framkvæmd sem felast m.a. í því að innheimta tekjuskatts, þótt lítill væri, útilokar notkun maka á skattkorti fanga. Þá er ekki til staðar fjárveiting til greiðslu tryggingaiðgjalds af þessum greiðslum. Ráðuneytið tók upp viðræður við fjmrn. um málið og er þeim viðræðum ekki lokið en ég vona að þær leiði til niðurstöðu innan skamms.

Að öðru leyti get ég tekið undir með hv. fyrirspyrjanda að það skiptir auðvitað máli að menn nái að fóta sig aftur í samfélaginu að aflokinni refsivist. Ég ítreka það sem ég sagði hér fyrr að þau mál sem hér er spurt um eru nú í sérstakri skoðun hjá ráðuneytunum.