Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 10:36:34 (1829)

2000-11-16 10:36:34# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Samkvæmt lögum sem gilda um starfsemi Ríkisendurskoðunar ber henni að semja skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Ársskýrslan fyrir liðið ár var gefin út og birt í maímánuði sl. Líkt og gert hefur verið á liðnum árum mun ég á eftir gera grein fyrir því helsta úr skýrslunni.

Á liðnu ári var lokið við alls 163 skýrslur um margs konar viðfangsefni er undir stofnunina heyra. Skýrslur vegna hefðbundinna fjárhagsendurskoðunar voru alls 154 en skýrslur þessar eru ekki birtar opinberlega eins og kunnugt er.

Á vegum stjórnsýslusviðs og lögfræðisviðs stofnunarinnar voru á hinn bóginn gerðar 9 skýrslur. Eins og jafnan áður voru nokkrar þeirra gerðar að beiðni eða frumkvæði annarra svo sem forsn. Alþingis. Skýrslur af þessum meiði eru ætíð lagðar fram á Alþingi. Skýrslur þær sem hér um ræðir fjölluðu t.d. um lögmæti hugbúnaðar hjá ríkisaðilum, innri endurskoðun, 2000-hæfni vélbúnaðar ríkisaðila, lífeyristryggingasvið Tryggingastofnunar ríkisins, innheimtusvið tollstjórans í Reykjavík, umhverfissefnu í ríkisrekstri og rekstrarstöðu heilbrigðisstofnana. Af þessari upptalningu má ráða að verkefni stofnunarinnar á þessu sviði eru mjög fjölbreytt og ólík.

Fastráðnir starfsmenn Ríkisendurskoðunar voru 43 á liðnu ári eða sem næst sami fjöldi og á árinu 1998. Þá störfuðu einnig fjórir verkefna- og tímaráðnir starfsmenn hjá stofnuninni á síðasta ári. Til að leysa af hendi hin víðtæku verkefni sem stofnuninni ber að lögum að sinna hefur hún á liðnum árum samið við ýmsa sjálfstætt starfandi löggilta endurskoðendur um að þeir annist endurskoðun á ársreikningum tiltekinna ríkisaðila. Í árslok 1995 voru 85 samningar af þessu tagi í gildi. Í þessum tilvikum er endurskoðunin unnin í umboði Ríkisendurskoðunar og í samráði við hana. Kostnaður er greiddur af stofnuninni ef um aðila í A-hluta ríkisreiknings er að ræða en annars af viðkomandi stofnun eða fyrirtæki. Umfangsmestu verkefni af þessu tagi voru boðin út á sínum tíma í samræmi við lög um opinber innkaup og reglur sem gilda í þessu efni á Evrópska efnahagssvæðinu.

Rekstrarútgjöld Ríkisendurskoðunar á liðnu ári námu að frádregnum sértekjum alls tæpum 208 millj. kr. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga lækkuðu útgjöld frá árinu 1998 um 3,6% að raungildi. Útgjaldaheimildir stofnunarinnar námu alls tæpum 220 millj. kr. Rekstur stofnunarinnar var því innan fjárheimilda svo nam tæpum 12 millj. kr. Til samanburðar skal þess getið að hallinn á rekstri stofnunarinnar á árinu 1998 nam rúmlega 8 millj. kr.

Á árinu 1999 skiluðu starfsmenn Ríkisendurskoðunar alls tæpum 63.700 vinnustundum við endurskoðun og tengd verkefni. Þessu til viðbótar nam aðkeypt vinna löggiltra endurskoðenda samkvæmt samningum um endurskoðun tiltekinna ríkisaðila rúmlega 5.800 tímum. Heildarvinnustundir við endurskoðun urðu samkvæmt þessu alls rúmlega 69.500 í stað tæplega 67.400 vinnustunda á árinu 1998. Endurskoðunartímum fjölgaði þannig um 3,2% á milli ára.

Langmestum hluta þess tíma sem Ríkisendurskoðun hefur til ráðstöfunar á hverju ári er varið til hefðbundinnar fjárhagsendurskoðunar hjá stofnunum, fyrirtækjum og sjóðum í eigu ríkisins. Á árinu 1999 fóru um 37.400 tímar í þessi verkefni sem er mjög svipað því sem raunin var árið 1998. Til verkefna á sviði stjórnsýsluendurskoðunar fóru um 7.000 vinnustundir og var þar um nokkra aukningu að ræða frá fyrra ári. Þá fóru 4.300 vinnustundir til verkefna á sviði endurskoðunar upplýsingakerfa, til umhverfisendurskoðunar fóru 1.300 vinnustundir, til eftirlits með ríkistekjum fóru 2.700 vinnustundir og til eftirlits með staðfestum sjóðum og sjálfseignarstofnunum var varið alls 1.400 vinnustundum.

Loks var alls 9.600 vinnustundum varið til annarra verkefna, þ.e. verkefna sem ekki verða heimfærð beint á endurskoðun. Má þar nefna yfirstjórn, námskeið, endurmenntun starfsmanna, almenna skrifstofustjórn, erlend samskipti o.fl.

Um þau verkefni sem stofnunin tók sér fyrir hendur vísa ég til skýrslunnar sjálfrar. Ég vil þó vekja athygli á því að Alþingi hefur enn ekki mælt fyrir um með formlegum hætti hvernig það eigi að fjalla um og afgreiða skýrslur þær er frá Ríkisendurskoðun berast. Í þessu sambandi er þó þess að geta að á sl. ári tók efh.- og viðskn. skýrslu stofnunarinnar um innheimtusvið tollstjórans í Reykjavík til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar. Kallaði hún fyrir sig bæði skýrsluhöfunda og forsvarsmenn tollstjóraembættisins. Að lokinni athugun sinni gaf nefndin út formlegt álit sitt í formi stuttrar skýrslu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að geta skýrslunnar um lögmæti hugbúnaðar hjá ríkisaðilum. Hún er í sjálfu sér ágætt dæmi um hve verkefni Ríkisendurskoðunar eru fjölbreytileg á köflum. Skýrsla þessi var unnin að ósk menntmrh. í framhaldi af samkomulagi hans og hugbúnaðarfyrirtækisins Microsoft þess efnis að fyrirtækið íslenskaði Windows 98 stýrikerfið gegn því að ríkisstjórnin útrýmdi ólöglegum hugbúnaði hjá stofnunum og fyrirtækjum ríkisins fyrir árslok 1999. Verkefni Ríkisendurskoðunar fólst í að kanna umfang ólöglegs hugbúnaðar hjá ríkisaðilum. Í skýrslu stofnunarinnar sem kom út í desember sl. er gerð grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar sem um margt kom á óvart í ljósi þess að hún tók aðeins til ríkisaðila. Þá er í henni og að finna ýmislegt um höfundarrétt að hugbúnaði og helstu brot gegn slíkum réttindum.

Eins og getið er um í skýrslunni gaf verkefnastjórn um upplýsingasamfélagið, sem starfar á vegum forsrn., út í apríl á þessu ári vinnuáætlun vegna þróunar rafrænna viðskipta og rafrænnar stjórnsýslu á árum 2000--2002. Af skýrslunni má ráða að ör þróun verði í hinu rafræna viðskiptaumhverfi á komandi árum og að stjórnvöld hafa þegar gert ráð fyrir að þetta verkefni verði eitt af forgangsverkefnum þeirra. Þau hafa þegar haft forgöngu um að semja frv. í því skyni að aðlaga löggjöf að þessari þróun sem og að gefa út reglugerðir um einstök atriði, svo sem rafrænar undirskriftir, rafrænt bókhald, geymslu rafrænna gagna og lágmarkskröfur til rafrænna bókhaldskerfa. Löggjöf þessi er fyrst og fremst á sviði fjmrn. og viðskrn.

[10:45]

Við blasir að þróun þessi mun hafa umtalsverð áhrif á störf endurskoðenda og þá ekki síst Ríkisendurskoðunar. Endurskoðun felst m.a. í því að sannreyna og staðfesta tiltekin atriði. Vegna skorts á hinni hefðbundnu endurskoðunarslóð á pappír og þess að verkaskiptingu verður ekki með góðu móti komið við vegna innra eftirlits í rafrænum viðskiptum verður við endurskoðun að nálgast viðfangsefnið með öðrum hætti en gert er við endurskoðun reikninga að baki hefðbundnum viðskiptum. Nauðsynlegt er að þeir sem þessari endurskoðun sinna þekki og skilji rekstur og uppbyggingu þeirra upplýsingakerfa sem notuð eru í viðskiptum. Þeir þurfa að geta kynnt sér og gengið úr skugga um hvort innbyggðir vélrænir eftirlitsþættir kerfanna séu fullnægjandi og hafi verkað eins og til var ætlast á því tímabili sem til skoðunar er hverju sinni. Ríkisendurskoðun hefur af þessum ástæðum lagt æ ríkari áherslu á innra eftirlit en áður. Þá gerir hún ráð fyrir að breyta og laga störf sín og starfshætti að þessari tækniþróun í því skyni að rækja betur hlutverk sitt og samræma það breyttu starfsumhverfi. Í þessu sambandi má geta þess að nýlega gaf stofnunin út sérstakt upplýsingarit um rafræn viðskipti.

En það er ekki aðeins ör þróun hinna rafrænu viðskipa sem mun hafa mikil áhrif á hlutverk og starfsumhverfi endurskoðenda. Í kjölfar ekki síður örrar þróunar á síðustu árum á sviði tölvu- og samskiptatæknu hefur fylgt nokkurs konar upplýsingabylting. Hún hefur haft í för með sér mjög auknar kröfur um að rekstraraðilar, hvort sem þeir eru opinberir eða einkaaðilar, veiti fleirum tíðari og fyllri upplýsingar en áður hefur tíðkast. Upplýsingar um fjárhagsleg atriði fyrirtækja verða aðgengileg fleirum en nú er. Í þessu sambandi má nefna aðila eins og verðbréfaþing, banka, lánardrottna, hluthafa, birgja o.fl. Líklegt er að draga muni úr gildi hefðbundinnar vottunar á reikningsskilum þegar fram í sækir en þess í stað verði meira lagt upp úr vottun á innra eftirliti og upplýsingakerfum þeim sem notuð eru innan fyrirtækjanna.

Í ljósi hinnar öru þróunar og breytinga á starfsháttum og starfsumhverfi endurskoðenda, stofnana og fyrirtækja á því sviði hefur Ríkisendurskoðun lagt umtalsverða áherslu á endurmenntun starfsmanna sinna. Þannig var starfsmönnum hennar gefinn kostur á að taka þátt í námskeiðum um gerð ársreikninga, tölvumál og fjárhagslega ábyrgð í ríkisrekstri, auk námskeiða til undirbúnings löggildingar í endurskoðun. Þá beitti stofnunin sér fyrir fræðslufundi með löggiltum endurskoðendum sem starfa í hennar umboði þar sem m.a. var fjallað um breytingar á framsetningu ársreikninga aðila í A-hluta ríkisreiknings og áhersluatriði í endurskoðun. Þar flutti m.a. yfirmaður innri endurskoðunar Fjárfestingarbanka Evrópu og fyrrum yfirmaður innri endurskoðunar hjá NATO fyrirlestur um innri endurskoðun og innra eftirlit.

Að lokum vil ég fyrir hönd forsn., herra forseti, flytja Ríkisendurskoðun og starfsmönnum hennar þakkir fyrir vel unnin störf á því ári sem hér hefur verið fjallað um.