Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 10:53:23 (1832)

2000-11-16 10:53:23# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[10:53]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom skýrt fram hjá síðasta hv. ræðumanni að viðkomandi ráðuneyti ættu að svara fyrir það sem fram kemur í þessum skýrslum. Ég verð að segja, herra forseti, að ég sé ekki nokkurn tilgang í að ræða þessar 154 eða eftir atvikum 163 skýrslur sem fjallað er um í starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar ef enginn hæstv. ráðherra er viðstaddur. Ég fæ ekki skilið að það sé hægt.

Starfsskýrslan sem slík er auðvitað eins og hvert annað plagg sem lagt er fram á ársfundi. Þó verð ég að benda á það, herra forseti, að hér vantar í skipuritið undir hvern þessi stofnun heyrir. Það er ekki í skipuritinu. Þar á Alþingi að sjálfsögðu að standa efst. Að sjálfsögðu á að standa þar Alþingi. Ég spyr, herra forseti, hvort við megum eiga von á að hæstv. ráðherrar verði viðstaddir til þess að svara fyrir þær skýrslur, eftir atvikum 154 eða 163, þegar við förum að ræða það sem um er fjallað í þessari ársskýrslu.