Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 10:56:13 (1834)

2000-11-16 10:56:13# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[10:56]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að drepa á eitt atriði í störfum Ríkisendurskoðunar sem mér þykir afskaplega veigamikið. Ég get þó ekki látið hjá líða, í kjölfar orðaskipta sem hér áttu sér stað um meðferð þeirra skýrslna og stjórnsýsluúttekta sem Ríkisendurskoðun lætur gera og sendir gjarnan þingmönnum, að fjalla eilítið um meðferð þeirra á hinu háa Alþingi. Skýrslurnar hafa engan ákveðinn markaðan farveg í störfum þingsins og það er venja frekar en undantekning að efnisatriði slíkra úttekta komist á dagskrá utan dagskrár, þá að frumkvæði einstakra þingmanna. Það er umhugsunarefni sem við ættum að velta eilítið fyrir okkur hvort ekki ætti að skoða sérstaklega og með hvaða hætti þessi þáttur mála fái afmarkaðan og kláran sess í umræðu Alþingis á hverju ári.

Rétt er að venjan hefur ekki verið sú við þessa umræðu að fara djúpt í einstakar skýrslur og efnisatriði þeirra en á hinn bóginn er það hárrétt athugað hjá hv. 5. þm. Vesturl. þegar hann spyr: Hvar á að ræða efnisatriðin ef ekki undir þessum dagskrárlið? Þetta hygg ég að þingmenn ættu að gaumgæfa og forsætisnefnd ætti að ræða. Þetta er ákveðinn galli og menn hafa bent á þetta um langt árabil.

En það sem ég ætlaði fyrst og fremst að ræða er hlutverk Ríkisendurskoðunar þegar kemur að endurskoðun hlutafélaga og sameignarfélaga í eigu ríkissjóðs. Þar er um allmörg fyrirtæki að ræða og mér sýnist samkvæmt upplýsingum endurskoðunarskýrslu endurskoðunar ríkisreiknings á árinu 1999 að eigið fé þessa fyrirtækja sé hvorki meira né minna en 70 milljarðar kr.

Í 2. mgr. 6. gr. laga um Ríkisendurskoðun segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Enn fremur skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga stofnana sem reknar eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira. Eigi ríkissjóður helmings hlut eða meira í hlutafélagi, sameignarfélagi, viðskiptabanka eða sjóði, þar sem endurskoðandi er kosinn á aðalfundi, skal gera tillögu um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga þess aðila.``

Þetta er algerlega skýrt. Ef hlutafélag er að helmingi eða meira í eigu ríkissjóðs skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun og hafa ábyrgð á henni. Á þessu er síðan hnykkt í 9. gr. sömu laga en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Enn fremur getur Ríkisendurskoðun gert stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim stofnunum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira, þó að öðrum sé að lögum falin fjárhagsendurskoðun þeirra.``

Hér er hlutverk Ríkisendurskoðunar afskaplega vel skilgreint og klárt. En hvernig er þessum málum til haga haldið þegar kemur að vinnslu þessara verkefna af hálfu Ríkisendurskoðunar? Hvað er okkur þingmönnum sagt hér í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1999? Með leyfi forseta, eru þau skilaboð sem þinginu eru færð svohljóðandi:

[11:00]

,,Endurskoðunarskýrslur hlutafélaga eru lagðar fyrir stjórn og endurskoðendum er skylt að svara spurningum hluthafa um atriði sem varða ársreikning fyrirtækja á aðalfundi. Ríkisendurskoðun er á hinn bóginn ekki heimilt að birta efnisleg atriði úr slíkum skýrslum í endurskoðunarskýrslu sinni um ríkisreikning viðkomandi árs þar sem hlutafélög eru einkaréttarlegir aðilar þó svo þau séu í meirihlutaeign ríkissjóðs.``

Hvað þýðir þetta, herra forseti? Það þýðir í raun og sanni að þau lagafyrirmæli sem er að finna í lögum um Ríkisendurskoðun í 6. og 9. gr. eru marklaus með öllu, hafa nákvæmlega enga þýðingu fyrir hið háa Alþingi og þá efnislegu umræðu sem lagaákvæðin kalla sérstaklega eftir.

Áður en ég fer fleiri orðum um það, herra forseti, vil ég vekja líka á því athygli að í endurskoðun ríkisreiknings er einnig í þessum stutta kafla gerð grein fyrir því hvernig háttað er endurskoðun þessara 12 félaga en eigið fé þeirra er 70 milljarðar kr. Upplýst er að Ríkisendurskoðun annast sjálf fjögur þessara félaga. Endurskoðun ríkishlutafélagabankanna var boðin út á sínum tíma og eru endurskoðuð af endurskoðendafyrirtækjum en meðárituð af ríkisendurskoðanda í samræmi við lagaákvæði þar um. Ég staldra við þennan punkt, herra forseti. Hvað þýðir það? Hver ber hina endanlegu ábyrgð gagnvart hluthöfum, þjóðinni, þinginu? Um það var deilt og hefur verið deilt og er enn óútkljáð. En ég les áfram, með leyfi forseta:

,,Endurskoðunarfyrirtæki endurskoða fjögur félög í umboði Ríkisendurskoðunar samkvæmt samningum þar um og hjá fjórum félögum eru endurskoðunarfyrirtæki ráðin af stjórnum þeirra.``

Herra forseti. Ég sé því miður ekki annað en hér sé í fyrsta lagi farið á svig við lög um Ríkisendurskoðun þó kunni að vera --- og ég hef ekki náð að kanna það sérstaklega --- að sérlög gildi um þessi fjögur félög þar sem endurskoðunarfyrirtæki séu ráðin beinlínis af stjórnum þeirra. En í lögum um Ríkisendurskoðun er kveðið á um að meirihlutaeigandi sem er ríkissjóður og handhafi þeirra bréfa eigi að leggja til á hluthafafundum að Ríkisendurskoðun hafi endurskoðun með höndum.

Ég vek hins vegar líka athygli á hugtökum eins og meðáritun og endurskoðun í umboði Ríkisendurskoðunar. Mér finnst þessi svæði vera grá og velti fyrir mér hvar hin endanlega ábyrgð liggur í þessum efnum. Það þarf algerlega að vera kýrskýrt, herra forseti, og við megum ekki velkjast í vafa um það. Slíkir hagsmunir eru í húfi fyrir skattgreiðendur, fyrir eigendur þessara fyrirtækja að enginn má velkjast í vafa um hvar ábyrgð og vald liggur. En nóg um það, herra forseti.

Ég ætla að víkja aftur að því sem ég ræddi um áðan um stöðu Alþingis sem umboðsmann eiganda til þess að fylgjast með því að hlutir gangi fram eins og eðlilegt mætti teljast. Það er með öllu óþolandi og hefur verið rætt mörgum sinnum áður og ég hef fært það hér í tal að fulltrúar framkvæmdarvaldsins, þeir ráðherrar sem fara með hluti ríkissjóðs í viðkomandi fyrirtækjum, þessum stóru fyrirtækjum, geti ítrekað sagt þingheimi það og fái til þess liðsstyrk Ríkisendurskoðunar að þingmönnum komi ekkert við hvernig hlutir gangi fram í þessum fyrirtækjum þjóðarinnar og beri fyrir sig lagatúlkanir sem eru mjög svo umdeildar og hafa verið ræddar árum saman á hinu háa Alþingi og hafa að mínu áliti ekki staðist og geta ekki staðist í ljósi þeirra lagafyrirmæla sem lög um Ríkisendurskoðun segja svo klárt og kvitt um. Eða, herra forseti, til hvers eru þessi ákvæði þá í 6. og 9. gr. laga um Ríkisendurskoðun ef ekki á að fara eftir þeim?

Vegna þess að menn hafa viljað halda því fram að um lagalega óvissu væri að ræða, réttarlega óvissu og um þetta væri deilt, hef ég flutt tvö frumvörp til að taka af öll tvímæli í þessa veru. Ég gerði það í fyrra, fyrst á 122. löggjafarþingi og flutti það einnig núna á haustdögum. Það mál kemur væntanlega mjög fljótlega til umræðu þar sem tekin eru af öll tvímæli í þessa veru, þar sem gerð er breyting annars vegar á þingsköpum og hnykkt á réttindum þingmanna til upplýsinga frá fyrirtækjum í eigu ríkissjóðs eða sem ríkissjóður á helming í eða meira og einnig til þess að taka af öll tvímæli í hlutafélagalögum þar sem meðeigendum ríkisins væri gert algerlega ljóst að almenn opinber upplýsingaskylda lægi á meiri hluta eigenda gagnvart þingi og þjóð þannig að enginn væri í vafa um leikreglur innan slíkra fyrirtækja.

Þessum atriðum vildi ég halda til haga, herra forseti. Ég hef gert það áður við svipaða umræðu og mun halda því áfram svo lengi sem óbreytt verklag verður við lýði. Þetta er óviðunandi.