Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:15:54 (1837)

2000-11-16 11:15:54# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:15]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Virðulegur forseti hefur gert grein fyrir skoðun sinni á málinu. Ljóst er að undir starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar heyra 163 skýrslur útgefnar á árinu 1998 og þar af 154 opinberar skýrslur sem hafa ekki verið ræddar. Þeim hefur aðeins verið dreift til þingsins og þingmenn hafa getað skoðað þær. Að sjálfsögðu hefðu þingmenn getað dregið fram einstaka skýrslu og beðið um utandagskrárumræðu um þá skýrslu. Það er eini möguleikinn sem ég sé að menn hafi til að ræða skýrslur Ríkisendurskoðunar. Þess vegna skoraði ég á virðulega forsn. að taka þessi mál til endurskoðunar og að hverri skýrslu, sem gefin er út af Ríkisendurskoðun, verði fundinn farvegur og vísað til viðkomandi nefnda sem hún tilheyrir og gefið verði út nefndarálit fyrir hverja einustu skýrslu Ríkisendurskoðunar og þeim verði skipað í það rými sem þær tilheyra. Ég var ekki bara að ræða um fjárlög. Ég var að tala um allt sem lýtur að þeim stofnunum sem fjallað er um í skýrslum Ríkisendurskoðunar og starfsemi þeirra sem liggur fyrir frá árinu 1998. Reyndar er það svo að það er náttúrlega hálfhjákátlegt á árinu 2000 að ætla að fara að tala um starfsemina á árinu 1998 og um skýrslu sem er gefin út í maí. Það er verið að ræða hana núna í nóvember. Þá skýrslu hefði átt að ræða í maí hefði verið tækifæri til. Annars hefði að sjálfsögðu átt að ræða skýrsluna í upphafi þings strax þegar þing kom saman í haust.