Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:34:46 (1841)

2000-11-16 11:34:46# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:34]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að ítreka það sem ég sagði áður að hér er starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1999 til umræðu og er það skylt samkvæmt 12. gr. laga um Ríkisendurskoðun sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Árlega skal samin heildarskýrsla um störf Ríkisendurskoðunar á liðnu almanaksári. Skal hún lögð fyrir Alþingi.``

Það er sú starfsskýrsla sem hér liggur fyrir en hér eru ekki til umræðu allar þær einstöku skýrslur sem Ríkisendurskoðun hefur gert. Ég veit ekki betur en Ríkisendurskoðun hafi sent þingmönnum þær skýrslur sem hún hefur samið þannig að alþingismönnum hefur verið unnt að kynna sér þær efnislega. Ég þarf ekki að taka fram við hv. þm. að einstökum þingmönnum er heimilt að flytja frv. um hvaðeina sem þeim dettur í hug og þarf ekki að gera það að sérstöku umræðuefni eða velta vöngum yfir því hvort forseta finnist það skynsamlegt eða ekki. Það er einfaldlega réttur þingmanna.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. að vissulega væri ástæða til þess að athuga húsnæðislánakerfið í heild sinni og þá þurfi ekki að vera neitt að binda sig við síðasta áratug. Það væri t.d. fróðlegt að sjá hvernig verkamannabústaðakerfið var leikið á sínum tíma og velta fyrir sér hver sé staða verkalýðsins til að eignast eigið þak yfir höfuðið nú á móti því sem áður var. Kannski væri líka ástæða til þess að velta vöngum yfir því hverjir það voru sem helst fluttu það mál hér á Alþingi að það væri af hinu illa að gefa fátæku fólki kost á því að eignast þak yfir höfuðið og vildu byggja upp leiguíbúðakerfi þess í stað. Líka væri fróðlegt að athuga hvernig leiguíbúðir sveitarfélaga hafa farið með fjárhag sveitarfélaganna. Það er auðvitað umræðuefni sem endalaust er hægt að ræða og líka hægt að velta fyrir sér hverjir bera pólitíska ábyrgð á því.