Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:47:32 (1846)

2000-11-16 11:47:32# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), JB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:47]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Lög um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, marka starfsramma Ríkisendurskoðunar. Ég vil leyfa mér, herra forseti, í upphafi ræðu minnar um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar 1999 að vitna í nokkur ákvæði þeirra laga, ekki síst í ljósi umræðna sem hafa átt sér stað nú til þessa um skýrsluna.

Í fyrsta lagi er það athyglisvert og ber að líta á að í 1. gr. stendur: ,,Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis`` en ekki sem hluti af Alþingi þannig að það er erfitt að sjá það gagnvart 1. gr. að hún heyrir beint undir Alþingi sem stofnun heldur að hún starfi á vegum Alþingis enda er í 3. gr. kveðið á um: ,,Ríkisendurskoðun er engum háð í störfum sínum. Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.``

Í þessum tveimur greinum er ítrekuð stjórnsýsluleg staða Ríkisendurskoðunar.

Mikið fer fyrir hlutverki Ríkisendurskoðunar varðandi endurskoðun og eftirlit með fjármagni og ráðstöfun fjár og reikningsskilum og reikningshaldi. Það er svo sem eðlilegt og mikilvægt og hingað til hefur þessi þáttur í starfsemi stofnunarinnar kannski vegið hvað þyngst en þó er Ríkisendurskoðun að fara inn á aðrar brautir og fylgja eftir og athuga aðra þætti sem lúta ekki beint að fjármálum. Þau atriði vil ég gera aðeins að umtalsefni.

Samkvæmt 9. gr. getur Ríkisendurskoðun framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim stofnunum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum sem um ræðir í 6. gr. Enn fremur getur Ríkisendurskoðun gert stjórnsýsluendurskoðun hjá fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira. Stjórnsýsluendurskoðun felst í því að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og síðan hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég tel afar mikilvægt þegar verið er að túlka stjórnsýsluendurskoðun og hlutverk og verkefni Ríkisendurskoðunar á því sviði að ekki sé eingöngu horft til beinna reikningsskila, fjármálalegra og fjárhagslegra reikningsskila, heldur sé líka tekið til þess hvernig staðið er við þær lögboðnu tilskipanir, lög sem kveða á um verkefni og skyldur af hálfu stjórnsýslunnar, bæði ráðuneyta, stofnana og annarra sem fá þar verkefni samkvæmt lögum, hvernig því er fylgt eftir. Ég legg áherslu á að Ríkisendurskoðun skilgreini einmitt hlutverk sitt þar nokkuð víðtækar en hún hefur gert á undanförnum árum og hún er reyndar að fara inn á samanber það sem við höfum hér og hv. síðasti ræðumaður vitnaði til skýrslu Ríkisendurskoðunar um umhverfisstefnu í ríkisrekstri. Þar er, herra forseti, verið að taka fyrir stefnumörkun og ályktun ríkisstjórnar, ráðuneyta og Alþingis í ákveðnum málaflokki og kanna hvernig honum er framfylgt.

Í upphafi skýrslunnar er einmitt vitnað til þess að ríkisendurskoðun annars staðar á Vesturlöndum hefur innan vébanda sinna og leggur stund á slíkar endurskoðanir eins og umhverfisendurskoðun, hvernig lögum og reglum sem snerta umhverfismál er framfylgt, hvernig staðið er við alþjóðlegar skuldbindingar og samninga á sviði umhverfismála og hvernig framkvæmdarvaldið stendur við eigin stefnumörkum á sviði umhverfismála.

Ég tel að með þessari skýrslu, herra forseti, sé Ríkisendurskoðun vissulega að brjóta blað í verkefnum sínum og hvernig hún kemur að stjórnsýslunni. Umhverfismálaflokkurinn er afar mikilvægur og þær einkunnir sem gefnar eru í lok skýrslunnar eru síðan afar lærdómsríkar en þetta er að mínu mati fyrsta skref í að Ríkisendurskoðun geti farið og tekið á fleiri málum sem ríkisstjórn eða Alþingi hefur markað, ekki bara á sviði umhverfismála sem er lofsverð. Ég teldi t.d., herra forseti, afar fróðlegt og gott ef Ríkisendurskoðun tæki fyrir framkvæmd markaðrar byggðastefnu í landinu á undanförnum árum til dagsins í dag með sama góða og lofsverða hætti sem Ríkisendurskoðun hefur tekið á umhverfisstefnu. Það er mjög eðlilegt að Ríkisendurskoðun taki á málaflokki sem er afar brýnn og heitur á hverjum tíma og er mjög umdeilt hvernig til hafi tekist og reyndar kannski ekki það umdeilt að ljóst sé að það hefur alls ekki tekist til eins og Alþingi hafði ályktað að skuli takast til. Þar finnst mér einmitt að Ríkisendurskoðun eigi að vera með fingurna á púlsinum og vera Alþingi til aðstoðar í að kanna hvers vegna þessi vilji Alþingis komst ekki til framkvæmda eða hvernig er þá staðan í þeim málum. Ég nefni til dæmis byggðastefnuna þar sem við stöndum frammi fyrir verulegu skipbroti í framkvæmd á stefnu Alþingis í þeim málum.

Ég vil aðeins víkja líka að þeim starfsháttum sem hér hafa mjög verið ræddir og vil þar gera að umtalsefni 11. gr. þar sem segir svo:

,,Nú ákveður Ríkisendurskoðun að beita skoðunarheimildum skv. 7. og 9. gr.`` --- þ.e. bæði fjárhagslegar og stjórnsýslulegar endurskoðanir --- ,,og skal stofnunin þá gera fjárln. og þeim þingnefndum, sem viðkomandi málaflokkur fellur undir, grein fyrir niðurstöðum sínum.`` Síðan kemur, herra forseti: ,,Þingnefndir geta samkvæmt nánari reglum sem forsætisnefnd setur og haft frumkvæði að athugunum samkvæmt þessum lagaákvæðum.``

Í lögum um Ríkisendurskoðun er kveðið á um hvaða aðila af hálfu Alþingis ber að setja frekari reglur um meðferð þessarar vinnu Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun hefur að sjálfsögðu ekkert framkvæmdarvald. Hún hefur einungis vald til þess að kalla eftir upplýsingum sem hún þarf til að sinna lögformlegum skyldum sínum, skila um það skýrslum og áliti og kynna það fyrir þeim stjórnsýslulegu aðilum sem henni ber að kynna það fyrir samkvæmt lögum sem gilda um hana. Það er síðan Alþingis að meta hvernig það tekur á þessari framkvæmd. Ég tel, herra forseti, að ástæða væri til að forsn. kannaði það að setja sér formlega þær reglur að allar skýrslur Ríkisendurskoðunar komi inn á hennar fund og hún deili þeim út sem slíkum til þeirra nefnda sem forsn. telur að eigi að fá þær skýrslur til meðhöndlunar og þær nefndir skili síðan forsn. aftur, annaðhvort með umfjöllun, greinargerð og tillögum um hvernig með skuli fara eða þá að ekki sé ástæða til að gera neitt frekar af hálfu nefndarinnar með skýrsluna. Þá geti síðan forsn. tekið þá ákvörðun að leggja skýrslurnar fyrir Alþingi ásamt þeirri umfjöllun sem nefndirnar hafa gefið. Lögin benda meira að segja á að þetta sé farvegur sem væri eðlilegur.

Ég vil draga þetta sérstaklega fram og taka undir það sem hér hefur verið sagt um nauðsyn þess að skýrslur Ríkisendurskoðunar fái þinglegan farveg inn í Alþingi í gegnum fagnefndir Alþingis og inn í Alþingi til umræðu hjá öllum þingheimi.

Þá vil ég líta aðeins á 12. gr., herra forseti. Þar stendur: ,,Árlega skal samin heildarskýrsla um störf Ríkisendurskoðunar á liðnu almanaksári.`` Þegar maður lítur á hugtakið heildarskýrsla hlýtur maður að velta fyrir sér hvort heildarskýrsla á ekki að bera með sér ítarlega skýrslu um það sem unnið hefur verið og Ríkisendurskoðun hefur skilað formlega af sér. Ég lít a.m.k. svo á að ekki sé endilega jafnaðarmerki á milli starfsskýrslu og heildarskýrslu og tel að kanna ætti hvort ekki sé eðlilegra og í samræmi við það sem lögin kveða á um að árlega skuli gefa heildarskýrslu, að í heildarskýrslu felist að þar komi fram þau mál og þau verkefni sem Ríkisendurskoðun hefur skilað formlega frá sér en ekki bara ágrip af því hvað hún hafi gert eða ætli að gera og síðan niðurstöður á ársreikningi sem er bara gott og blessað. Fyrir mér er starfsskýrsla ekki endilega það sama og heildarskýrsla. Þessu vil ég vekja ítarlega athygli á.

Herra forseti. Varðandi enn frekari verkefni, sem mér finnst að Ríkisendurskoðun gæti látið til sín taka, af því að fyrir mér virkar þetta eins og einhvers konar aðalfundur Ríkisendurskoðunar þar sem verið er að fjalla um ársreikninga, starfsmannafjölda og annað því um líkt, vil ég drepa á atriði sem ég tel að Ríkisendurskoðun ætti einmitt að fara áfram að huga að. Ég minntist áðan á úttekt á stefnumörkun og ályktunum Alþingis sem virðast ekki ná fram að ganga, væri ástæða til að Ríkisendurskoðun tæki þær sérstaklega fyrir eða a.m.k. í þeirri forgangsröðun svipað og hún hefur ítarlega og vel gert með umhverfisstefnuna þar sem kemur fram að henni er hrint af stokkunum án þess að nein eftirfylgja liggi fyrir. Ég nefndi byggðastefnuna.

En einu stöndum við frammi fyrir t.d. í fjárln. að æ stærri hluti af fjármunum ríkisins er bundinn í alveg nýjum tegundum af samningum, í einhverjum sem heita árangursstjórnunarsamningar, í einhverjum sem heita rammasamningar, í einhverjum sem heita reiknilíkön og okkur er bara sagt: Þið bara standið frammi fyrir þessu. Það er búið að ákveða þetta í ráðuneytinu. Þessi tegund af fjárlagagerð eða þessi tegund af vinnu hefur að mínu viti ekki verið borin undir Alþingi sem slík eða meðferð hennar. Er þarna náð fram markmiðum þeirra laga og reglna sem ætlunin er að vinna eftir?

Mér finnst ástæða til, herra forseti, að Ríkisendurskoðun fari einmitt að kanna ýmislegt sem við stöndum þarna frammi fyrir. Ég ítreka svo góð orð til Ríkisendurskoðunar sem hér hafa fallið.