Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 12:18:24 (1848)

2000-11-16 12:18:24# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), PHB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[12:18]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar og það hefur borið við í umræðunni að menn vilji ræða um einstakar skýrslur þeirrar stofnunar. En við erum sem sagt að ræða um starfsskýrsluna og ég vildi rétt aðeins koma inn á það að Ríkisendurskoðun heldur sig nokkuð vel innan ramma fjárlaga og gjöldin hækka einungis um 4,5% sem er mjög ánægjulegt þannig að hún hefur látið af þeirri miklu aukningu á gjöldum sem verið hefur undanfarin ár og virðist núna vera með betri rekstur.

Auðvitað er það markmið að fá eins og víðast hvar meira fyrir minna fé, þ.e. meiri endurskoðun fyrir minna fé og það næst væntanlega með betri stjórnun og betri nýtingu á mannskap og fjármagni. En stjórnun er veikur hlekkur í íslensku atvinnulífi og alveg sérstaklega í opinberum rekstri.

Herra forseti. Mikið af umræðunni hefur verið um þær gagnmerku skýrslur sem Ríkisendurskoðun lætur frá sér fara í miklum mæli og það er alveg rétt að þær virðast daga uppi, tilviljunarkennt. Fjölmiðlar grípa eina og eina á lofti og mjög fáar hafa komið til umræðu í nefndum þingsins sem geta að sjálfsögðu tekið þær upp en það er enginn farvegur fyrir skýrslurnar. Ég tel að því þurfi að breyta í þingsköpum. Ég skora á hv. þingheim að taka sér tak og breyta þingsköpum í þá veru t.d. að forseti útdeili skýrslum Ríkisendurskoðunar til nefnda þingsins og að nefndirnar fari yfir skýrsluna og gefi umsögn um hverja einustu skýrslu. Ef einn nefndarmaður óskar eftir verði umræða á Alþingi um viðkomandi skýrslu. Auðvitað eru skýrslurnar mjög margar og mismerkilegar og mismikil þörf á því að ræða þær. Um sumar má segja að málin séu í lagi og þá þarf ekkert að ræða það neitt frekar. Aðrar gefa kannski til kynna að eitthvað sé að og þá finnst mér að hver nefndarmaður í viðkomandi nefnd þingsins eigi að geta gert kröfu til þess að umræða fari fram um skýrsluna á hinu háa Alþingi.

Ég tek undir það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði um eftirfylgni. Það hefur lítið að segja að koma með skýrslur ef enginn fylgist með því að það sé lagað sem er að og bent er á í skýrslunni. Ég tek því mjög undir það sem hv. þm. sagði um að það verði að vera eftirfylgni með skýrslum.

En ég vildi ræða annað. Það eru þær gífurlega miklu breytingar sem við stöndum frammi fyrir á næsta áratug varðandi rafræn viðskipti sem gefa óþekkta möguleika bæði til notkunar og til misnotkunar. Ég er mjög ánægður með að Ríkisendurskoðun ætlar að taka á þessu vandamáli og vera vonandi á undan þróuninni. Eins og ég gat um gefur sú þróun mikla möguleika til nýrrar notkunar sem menn sjá ekki fyrir, sem mun flytja fyrirtæki og starfsmenn milli landa. Ekki er lengur hægt að segja hvar ákveðinn starfsmaður vinnur og hvar hann eigi að borga skatta því hann getur loggað sig inn á tölvu í einhverju allt öðru landi og verið að vinna þar. Hann getur meira að segja verið á baðströnd á Kanaríeyjum og verið að vinna eitthvert starf hér á Íslandi. Þetta er notkunin og svo eru náttúrlega gífurlega miklir möguleikar á misnotkun. Þar kemur kannski inn í það að Ríkisendurskoðun verði opinberum stofnunum til leiðbeiningar um það hvernig eigi að varast slíka misnotkun á þeim nýju möguleikum sem þessi rafrænu viðskipti gefa okkur.