Einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 13:46:41 (1859)

2000-11-16 13:46:41# 126. lþ. 26.94 fundur 122#B einangrunarvistun fanga og fjárskortur fíkniefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Í fyrirspurnatíma Alþingis í gær voru tekin upp nokkur mál sem snerta fíkniefnaneyslu og löggæslu. Því miður er það staðreynd að neysla ólöglegra fíkniefna hefur stóraukist hér á landi á allra síðustu árum. Bæði hið opinbera og samfélagið allt hafa reynt að bregðast við þessari stórhættulegu þróun, oft of seint og af veikum mætti. Fíkniefnadeild lögreglunnar hefur verið efld en fjármagn til hennar hefur ekki fylgt tilteknum verkefnum, þ.e. ekki verið í samræmi við fjölda og umfang mála. Gæsluvarðhaldsföngum hefur að sama skapi fjölgað með fleiri afbrotum og þar af leiðir að einangrunarvistun er algengari. Einangrunarvistun hefur mjög skaðleg áhrif á heilsu fanga og verður skaðlegri eftir því sem gæsluvarðhaldstíminn er lengri. Því er mikilvægt að mál gæsluvarðhaldsfanga hafi forgang og gangi eins hratt fyrir sig og mögulegt er, en til þess þarf fíkniefna- og efnahagsbrotadeild lögreglunnar að vera vel mönnuð.

Fíkniefnadeildin hefur verið í yfirvinnubanni síðan í september þó að ráðherra segi hér annað og augljóst er að það hefur mikil áhrif á allt starf deildarinnar en þar starfa 10 menn. Þetta verður til þess að aðeins er hægt að sinna brýnustu verkefnum sem upp koma. Ein alvarlegasta afleiðingin er sú að lögreglumenn í fíkniefnadeildinni geta ekki unnið mikilvæg verkefni sem felast í að vinna úr ýmsum vísbendingum sem gefa fíkniefnabrot til kynna. Þetta hefur fíkniefnalögreglan sjálf margsinnis bent á en ekkert verið að gert. Ég þakka fyrir það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, að hún hefði lagt til að fjármagn til fíkniefnalögreglunnar yrði aukið. Ég ætla að vona að það verði í þeim mæli að svona mál þurfi ekki að koma upp á Alþingi dag eftir dag.